Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vandinn ekki leystur með peningum

14.01.2020 - 18:45
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Fjármálaráðherra segist engin gögn hafa séð um að vandi bráðadeildar Landspítalans verði leystur með viðbótarfjármagni. Tilefni sé til að spyrja um forgangsröðun í rekstri spítalans, og hvers vegna viðbótarfé síðustu ára hafi ekki gagnast til að leysa hnúta á bráðamóttökunni.

vMikið hefur verið fjallað um vanda bráðadeildar Landspítala síðustu vikur. Hinar ýmsu starfstéttir spítalans hafa sent frá sér yfirlýsingar þar sem neyðarástand er sagt ríkja, og að það versni dag frá degi. 

Sjá einnig: Margt reynt til að bæta aðstöðuna á bráðamóttöku

Stjórn Landspítalans réðst í skipulagsbreytingar í lok síðasta árs. Til dæmis var gripið til uppsagna, laun voru lækkuð og föst hagræðingarkrafa lögð á allar stoðdeildir spítalans.

Stjórn læknaráðs spítalans kallaði í síðustu viku eftir því að fjárveitingar til spítalans yrðu auknar vegna stöðunnar á bráðadeildinni. 

„Ég hef engar upplýsingar séð sem sýna fram á það að vandi bráðadeildarinnar verði leystur með viðbótarfjármagni,“  segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Sjá einnig: Segja hættuástand fyrir löngu daglegan veruleika

Bjarni segir að ríkisstjórninn hafi aukið fjármagn til heilbrigðismála á síðustu árum vegna þess að það hafi verið nauðsynlegt en hann á ekki von á að fjárlögum þessa árs verði breytt. Hann segir tilefni til að spyrja um rekstur spítalans og forgangsröðun þar. 

„Hvers vegna fjármagnið sem við höfum verið að auka við til spítalans, og við höfum verið að bæta verulega í, er ekki að gagnast til að leysa hnúta á bráðamóttökunni.“

Þetta sé flókinn rekstur. „ Það kemur margt til. Við erum í miðju ferli við að byggja nýjan spítala, við stöndum líka í kjarasamningum og þetta er stærsti vinnustaður hjá hinu opinbera. En ég held að það þurfi ekkert síður að spyrja að stjórnunarlegum þáttum. Hvernig menn spila úr þeim fjármunum sem menn hafa, heldur en hinum, hvort það eigi að halda áfram að bæta í,“ segir fjármálaráðherra.