Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Valur Íslandsmeistari kvenna í fótbolta

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Valur Íslandsmeistari kvenna í fótbolta

21.09.2019 - 15:52
Íslandsmeistaratitillinn í Pepsi Max-deild kvenna fór á loft í dag. Valur var með tveggja stiga forskot á Breiðablik fyrir lokaumferðina og því gátu Valskonur tryggt sér titilinn með jafntefli eða sigri á Keflavík að Hlíðarenda.

Hvorki Valur né Breiðablik höfðu tapað leik í úrvalsdeildinni á leiktíðinni. Liðin gerðu tvö jafntefli í innbyrðisviðureignum sínum en markalaust jafntefli Breiðabliks og Þórs/KA í ágústbyrjun kom Val upp fyrir Blika og því gat Valur tryggt sér 11. Íslandsmeistaratitilinn og þann fyrsta frá árinu 2010.

Mynd: Mummi Lú / RÚV
Viðtal við Fanndísi Friðriksdóttur, leikmann Vals.

Leikurinn fór rólega af stað í upphafi en á 11. mínútu átti landsliðskonan Hallbera Gísladóttir þrumuskot fyrir utan teiginn og boltinn söng í hliðarnetinu og Valur þar með komið í 1-0. Þannig var staðan sömuleiðis í hálfleik. Á 56. mínútu tvöfaldaði Lillý Rut Hlynsdóttir forystu Vals og fimm mínútum síðar skoraði Margrét Lára Viðarsdóttir þriðja mark Vals, hennar fimmtánda í sumar.

Mynd: Mummi Lú / RÚV
Viðtal við Hallberu Guðnýju Gísladóttur, leikmann Vals.

En Keflavíkingingar voru ekki búnir að gefast upp og Sveindís Jane Jónsdóttir minnkaði muninn fyrir Keflavík á 69. mínútu. Aðeins tveimur mínútum síðar var Sveindís sloppin í gegnum vörn Vals og Sandra Sigurðardóttir, markvörður, felldi Sveindísi sem uppskar vítaspyrnu fyrir vikið. Sophie Groff tók spyrnuna og minnkaði muninn fyrir Keflavík og staðan skyndilega orðin 3-2 að Hlíðarenda. Keflvíkingar áttu skot í slá þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka en leiknum lauk með 3-2 sigri Vals og Íslandsmeistaratitillinn færist því úr Kópavogi og yfir á Hlíðarenda í ár. 

Breiðablik vann Fylki örugglega 5-1 en Blikar enda tveimur stigum frá Val í deildinni.

Mynd: Mummi Lú / RÚV
Viðtal við Pétur Pétursson, þjálfara Vals.

Valur skráði sig um leið í sögubækurnar með Íslandsmeistaratitlinum í dag en Valur er nú ríkjandi meistari í fótbolta, handbolta og körfubolta í kvennaflokki. Aldrei áður hefur félagi hér á landi tekist að verða Íslandsmeistari í þremur stærstu boltagreinunum samtímis, hvorki í karla- né í kvennaflokki.

Mynd: Mummi Lú / RÚV
Viðtal við Elínu Mettu Jensen, leikmann Vals.