Valsmenn vilja losna við Gary Martin

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Valsmenn vilja losna við Gary Martin

14.05.2019 - 11:29
Enski framherjinn Gary Martin virðist vera á förum frá Íslandsmeisturum Vals í fótbolta eftir stutt stopp. Martin gekk í raðir Vals í janúar og hefur skorað tvö mörk í fyrstu þremur leikjum Vals í deildinni. Valur vill hins vegar losna við hann.

Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals staðfestir við vefmiðilinn 433.is á DV í dag að Gary Martin megi finna sér nýtt félag. Hans krafta sé ekki óskað áfram á Hlíðarenda. „Ég er búinn að tilkynna honum að hann megi finna sér nýtt félag, Gary er fínn drengur og búinn að standa sig vel. Hann hentar ekki okkar leikstíl,“ er haft eftir Ólafi á 433.is.

Valur hefur aðeins eitt stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar í Pepsi Max deildinni. Liðið gerði 3-3 jafntefli við Víking R. í 1. umferðinni, tapaði 1-0 fyrir KA í 2. umferð og tapaði svo 2-1 fyrir ÍA í 3. umferð. Þá er Valur einnig úr leik í Mjólkurbikarnum. Valur tapaði fyrir FH í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar.

„Eins og staðan er núna er enginn leikmaður að koma til okkar, við erum að líta í kringum okkur. Við erum á vaktinni núna, þessi gluggi sem er opinn núna er rosalega erfiður. Maður veit aldrei hvað gerist,“ sagði Ólafur við 433.is en félagaskiptaglugginn lokar á morgun. Martin var tilkynnt í gær að hann mætti finna sér nýtt félag. Gary Martin gerði þriggja ára samning við Val þegar hann samdi við félagið í janúar.