Valskonur gjörsigruðu Stjörnuna

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Valskonur gjörsigruðu Stjörnuna

25.01.2020 - 19:25
Valur vann öruggan 35-22 sigur á Stjörnunni er 13. umferð Olís-deildar kvenna í handbolta kláraðist í kvöld. Valskonur eru í öðru sæti deildarinnar, þremur stigum frá toppliði Fram.

Fram vann öruggan tíu marka sigur á HK fyrr í dag og komst með honum fimm stigum frá ríkjandi Íslandsmeisturum Vals í töflunni. Stjarnan var í þriðja sæti deildarinnar, fjórum stigum frá Val og gat því minnkað það bil í tvö stig með sigri.

Leikur liðanna var jafn í upphafi en  staðan var 5-5 eftir rúmlega tíu mínútna leik. Þá skildu leiðir er Valur skoraði næstu fimm mörk og lagði liðið þannig grunninn að 18-11 forystu sinni í leikhléi.

Valskonum héldu engin bönd í síðari hálfleik og mest náðu þær 16 marka forystu, 35-19, þegar fimm mínútur voru eftir. Stjarnan lagaði stöðuna með því að skora síðustu þrjú mörk leiksins en það dugði skammt. Valskonur unnu 35-22 sigur og minnka því forskot Framkvenna á toppnum í þrjú stig.

Lovísa Thompson var markahæst Valskvenna með átta mörk en Ásdís Þóra Ágústsdóttir var skammt undan með sjö mörk, þar af fimm af vítalínunni. Þá var Íris Björk Símonardóttir öflug í marki Vals en hún varði 17 skot, með markvörslu upp á 47%. Hjá Stjörnunni voru Karen Tinna Dmian og Sigrún Ása Ásgrímsdóttir markahæstar með fjögur mörk hvor.

Tengdar fréttir

Handbolti

Öruggur sigur Eyjakvenna sendir þær upp fyrir KA/Þór

Handbolti

Níundi sigur Framkvenna í röð