Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Valið stendur á milli lakksins og lungnanna í börnunum

14.11.2019 - 12:08
Mynd: Ágúst Ólafsson / RÚV
Svifryk mælist ítrekað yfir heilsuverndarmörkum á Akureyri. Á þriðjudaginn voru íbúar síðast varaðir við mengun, þá sýndu mælar yfir 400 µg/m³. Fari gildin yfir150 µg/m³ getur heilbrigt fólk fundið fyrir óþægindum. Hvað veldur þessu og hvað er er til ráða?

Íslandsmeistarar í svifryki

Mælingar sýna að meira svifryk er allajafna við gatnamót Glerárgötu og Strandgötu á Akureyri en við gatnamót Grensásvegar og Miklubrautar í Reykjavík. Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, átti fund með viðbragðshópi um svifryksmengun á Akureyri í síðustu viku.

„Yfirleitt hefur mælistöðin hérna á Akureyri verið sú sem sýnir hæstu gildin á landinu. Við erum sem sagt með hæsta ársmeðaltalið hér og flest skiptin yfir mörkum, þannig að þetta er sá staður sem er yfirleitt með mesta svifrykið af þeim stöðum sem við mælum,“ segir Þorsteinn.

Heilbrigðisnefnd leggur til aðgerðir

Þorsteinn fundaði einnig með heilbrigðiseftirliti Norðurlands. Eftir þann fund lagði eftirlitið fram bókun þar sem mælst er til þess að Akureyrarbær og Vegagerð ríkisins noti eingöngu salt til hálkuvarna í vetur. Þá er lagt til að verði gert átak í því að efla þrif á götum bæjarins. Þá er mælst til þess að Akureyrarbær og Akureyrarhöfn fjárfesti í færanlegum svifryksmæli sem verði notaður gagngert til þess að fylgjast með svifryki víðs vegar í bænum og einnig vegna mengunar frá skemmtiferðaskipum í Akureyrarhöfn.

Valið er á milli lakksins á bílunum og lungnanna í börnunum

Hann segir að Akureyringar þurfi að ákveða hvort þeir ætla að meta lakkið á bílum sínum ofar lungum barna í bænum. Á Akureyri hafa götur hingað til verið hálkuvarðar með jarðefnum. Þorsteinn leggur til að bærinn taki upp breyttar hálkuvarnir og dragi úr notkun jarðefna. Þá leggur hann til að götur verði rykbundnar með saltvatni eins og gert er á höfuðborgarsvæðinu. Á þessu ári hefur Akureyrarbær gert tilraunir með að rykbinda með því að sprauta sjó á göturnar. Það hefur skilað misjöfnum árangri. Í vetur verður notaður sandur með saltblöndu sem hálkuvörn. 

„Fer ekki saltið illa með bílana, eykur það ekki ryðmyndun? Svarið við því er, jú það gerir það, það ýtir undir ryð. Bílar eru samt miklu betri í dag en þeir voru áður fyrr þannig að ég myndi segja að það væri ekki stórt vandamál. Það sem þarf eiginlega að leggja á vogarskálarnar er annars vegar heilsan á lakkinu á bílnum og hins vegar eigum við að hugsa um lungun í börnunum okkar.“

Nagladekkin valda vandræðum

Þorsteinn segir að notkun jarðefna við hálkuvarnir sé helsti sökudólgurinn í svifryksmengun. Fleiri ástæður séu þó fyrir svifikinu og þar nefnir hann notkun nagladekkja.  

„Það er miklu meiri notkun á nagladekkjum hér á Akureyri. Naglarnir slíta malbikinu miklu meira þannig að naglarnir eru ráðandi í sliti. Svo eru bara hálkuvarnirnar öðruvísi. Hér er verið að hálkuverja með jarðefnum líka, með svona grófum sandi. Það skapar ákveðið vandamál, bæði eykur það slitið og svo geta þessi jarðefni brotnað niður í fínna ryk.“

Starfshópur vinnur að lausnum

Á síðasta ári var skipaður vinnuhópur með fulltrúum sveitarfélagsins, Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, sem var falið að undirbúa aðgerðaáætlun gegn svifryksmengun. Andri Teitsson, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar, ræddi vandamálið við fréttastofu í síðasta mánuði.  Þar sagði hann að ástandið væri óviðunandi og það þyrfti að taka fastar á málum. Hann sagði raunhæft að Akureyringar drægju úr notkun nagladekkja. „Núna erum við til dæmis laus við einn fjallveg austan við okkur, Víkurskarðið, þannig að það er að verða auðveldara að láta nægja loftbóludekk eða önnur harðkornadekk, sleppa nöglunum.“ 

Mynd með færslu