Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Valdimar frumflytur lag eftir Stjórnina

Mynd: RÚV / RÚV

Valdimar frumflytur lag eftir Stjórnina

28.02.2020 - 16:03

Höfundar

Hljómsveitin Valdimar fagnar 10 ára starfsafmæli sínu um þessar mundir og ætlar því að blása til afmælistónleika í Eldborgarsal Hörpu 27. mars. Hljómsveitin kom í Stúdíó 12 og lék tvö af lögum sínum auk þess að taka ábreiðu af lagi með Stjórninni.

Valdimar Guðmundsson söngvari segir að hljómsveitin ætli að taka flest af sínum bestu lögum á afmælistónleikunum. 

„Það verður eitthvað svona best of prógramm. Við ætlum að reyna að hafa þetta í tímaröð, byrja á fyrstu plötunni, tala aðeins um hana og spila nokkur lög af henni. Fara svo í næstu. Við ætlum að reyna að undirbúa eitthvað, í þetta eina skipti“, sagði Valdimar og hló.

Mynd: RÚV / RÚV
Valdimar - Yfir borgina

Hljómsveitin Valdimar varð alvöru hljómsveit árið 2010 en á þó engan formlegan afmælisdag. Söngvarinn segir að þetta hafi gerst nánast alveg óvart. „Það tók smátíma fyrir hljómsveitina að verða til. Ég kom til Ásgeirs og vildi stofna sóló-project sem hægt og rólega þróaðist og varð að hljómsveit. Við erum að mæla þetta við 2010, platan kemur þá og fyrstu lögin koma út þá. Í rauninni varð hljómsveitin til árið 2009, eða hluti af henni.“

Þegar spurt er um helstu fyrirmyndir og áhrifavalda eru liðsmenn hljómsveitarinnar sammála um að áhrifin komi víða að, sumt heyrist greinilega en annað ekki. Þeir hlusta allir á Radiohead og hljómsveitin The National kemur einnig sterk inn. 

„Það kemur yfirleitt hugmynd frá mér eða Ásgeiri, eða mér og Ásgeiri. Hver og einn kemur svo með sinn part þannig að það eru ýmsar stefnur í hverju lagi, sem koma frá hverjum og einum,“ sagði Valdimar. 

Lokalag Valdimars í Stúdíói 12 var lagið Ég lifi í voninni með Stjórninni. Það var ákveðið á síðustu stundu. „Við vorum búnir að prufa ýmislegt í gær. Svo í gærkvöldi kom Ásgeir til mín og sagði að við yrðum að taka þetta lag. Við höfum aldrei spilað þetta áður, þetta er frumflutningur á þessu lagi hjá okkur.“

Hljómsveitina Valdimar skipa:
Valdimar Guðmundsson, söngur
Ásgeir Aðalsteinsson, gítar
Guðmundur Már Guðmundsson, bassi
Þorvaldur Halldórsson, trommur
Kristinn Evertsson, hljómborð
Högni Þorsteinsson, gítar

Mynd: RÚV / RÚV
Valdimar - Ég lifi í voninni