Rapparinn, sem heitir réttu nafni Daniel Hernandez, átti yfir höfði sér áratugalangan dóm fyrir ýmsa glæpi, ofbeldi og fjárglæfrastarfsemi tengda glæpagengjum. Til að komast hjá því brá rapparinn ungi á það ráð að gefa dómstólnum upplýsingar um aðra liðsmenn og innri virkni gengisins sem hann var hluti af.
Miklar vangaveltur eru um hvernig ætlar að lifa öruggu lífi eftir að hann kemur úr fangelsi. Honum hefur verið boðin vitnavernd til að hefja nýtt líf á öðrum stað í Bandaríkjunum. En spurningin er hægt er að koma slíkri vernd við í tilviki rapparans litskrúðuga. Nokkrar umræður hafa skapast um hversu erfitt yrði fyrir rapparann að hverfa í fjöldann, meðal annars vegna áberandi útlits síns og ekki síst andlitshúðflúra.
Jenna Huld Eysteinsdóttir hefur meðal annars fjarlægt húðflúr undanfarin ár, þar á meðal af fyrrverandi gengjameðlimum í Svíþjóð. Hún segir að tæknin hafi lengi framan af verið léleg og ófullkomin en með nýjum pico-laserum sé hægt að ná mun betri árangri. Það velti hins vegar mikið á færni húðflúrarans, gæðum og lit bleksins sem notað er. Auðveldara sé að ná dökkum litum en ljósum, og nánast ómögulegt að fjarlægja hvít og gul húðflúr.
Það skiptir hins vegar ekki öllu máli hvar húðflúrið sé staðsett þó það sé vissulega sársaukafyllra á þeim stöðum líkamans þar sem fólk er viðkvæmt. Þannig sé jafnvel mögulegt að fjarlægja húðflúr af andliti. „Já, staðsetningin skiptir í rauninni ekki máli, heldur bara liturinn, og hve vel þetta var gert í upphafi,“ segir Jenna en bætir við að litur húðarinnar geti þó einnig skipt máli um hvernig ummerkin verða.
„Hann er með dökka húðtýpu þannig að maður þyrfti að fara varlega, og gæti tekið lengri tíma en hjá þeim sem eru með ljósari húð. Hann gæti fengið viðbragð í húðina og myndað brúna flekki.”