Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vaðlaheiðargöng kosta 17 milljarða

13.03.2018 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: Valgeir Bergmann
Vaðlaheiðargöng enda með að kosta á bilinu 16 til 17 milljarða, segir stjórnarformaður VHG ehf. Fyrstu árin eftir opnun verða notuð til að meta forsendur til endurgreiðslu á lánum ríkisins. Göngin eiga að opna í haust og gildir lánið til 2021. Stjórnarformaðurinn segir að þingmaður Pírata sé í stríði við Ríkisábyrgðarsjóð, eftir að hafa látið reikna framkvæmdalánið með hærri vöxtum en eru á láninu.

Þingmaður segir lánið vitlaust reiknað

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata í Reykjavíkurkjördæmi suður og fulltrúi í fjárlaganefnd, lagði fram fyrirspurn í fyrra um líklegan kostnað við Vaðlaheiðargöng væri lánið reiknað með sömu formúlu og lán sem falla undir lög um ríkisábyrgð.

Björn Leví segir í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum í gær að allar forsendur um gjaldheimtu og rekstrargrundvöll gangnanna væru reiknaðar á miklu lægri vöxtum en lög um ríkisábyrgð segja. Hann spurðist fyrir og fékk svar í gær. 

„Þar kemur fram að ef lánsheimild verður nýtt að fullu, göngin opnuð í árslok 2018, verð í gegnum göngin verði 1.250 kr. án VSK ásamt nokkrum öðrum forsendum, að staða framkvæmdarlánsins yrði 33,8 milljarðar þegar reksturinn verður færður til einkaaðila og lánið endurfjármagnað hjá fjárfestum. Það er heildarkostnaðurinn við framkvæmdina og áhættu ríkisins sem ábyrgðaraðila fjármögnunar,” segir Björn Leví. „Það er kostnaðurinn sem framkvæmdaraðili hefði þurft að fjármagna hjá almennum fjárfestum. Það er kostnaðurinn sem framkvæmdin þarf að standa skil á ef verkið á að teljast einkaframkvæmd og réttlæta tilveru sína utan samgönguáætlunar.”

Frekar óraunhæfar forsendur

Í svari Ríkisábyrgðarsjóðs, sem Björn Leví byggir á, segir að miðað við gefnar forsendur í fyrirspurn þingmannsins mundi lánið enda í tæpum 34 milljörðum króna árið 2021. Ríkisábyrgðarsjóður tekur þó fram í svarinu að „þær forsendur sem í svari þessu eru lagðar til
grundvallar útreikningi á stöðu lána og umferðarmagni eru að mati Ríkisábyrgðasjóðs frekar óraunhæfar og allar niðurstöður ber að skoða í því ljósi.” 

Segir töluna út úr korti

Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga, segir þessa tölu út úr korti. Endanlegur kostnaður við göngin verði á bilinu 16 til 17 milljarðar á verðlagi síðasta árs. Lánið sé með vaxtastigi sem verði ekki breytt. Þingmaðurinn sé í stríði við Ríkisábyrgðarsjóð.  

„Auðvitað geta menn kallað eftir svona dæmaleikjum og beðið um alls konar útreikninga. Ef þingmaðurinn hefði til dæmis beðið um aðeins hærri vexti hefðu göngin getað kostað 50 milljarða,” segir Friðrik. 

Miklu dýrari en upphaflega stóð til

Fá orð þarf að hafa um tafirnar sem orðið hafa á framkvæmdinni, en upphaflega var áætlaður kostnaður tæpir níu milljarðar. Þá áttu þau að opna seinni part árs 2016. Nú stendur til að opna þau í haust. Veggjaldið sem hefur verið notað í reikniformúlum er 1250 krónur, en sú tala hefur ekki verið ákveðin.

Friðrik segir að veltan í gögnunum gæti orðið 700 til 800 milljónir á ári, en fyrstu árin verði tekjustreymið metið til að sjá hvað þarf að gera til að þau standi undir sér. 

„Þá sjást þessar lykilbreytur: hversu mikil umferð, veggjaldið sjálft, sem gefur þá til kynna hvernig menn hugsanlega stilla af langtímalán miðað við árafjölda og annað,” segir Friðrik.