Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Útvarpsþáttur sem gefur íslenskri náttúru rödd

16.09.2016 - 16:15
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, veitti útvarpsþættinum Samfélaginu, sem er á dagskrá Rásar 1, fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Þá hlutu hjónin Kolbrún Ulfsdóttir og Jóhannes Haraldsson á Hótel Rauðuskriðu í Aðaldal náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Þá hlaut Stella Guðmundsdóttir í Heydal í Mjóafirði einnig þá viðurkenningu.

Útvarpsþátturinn Samfélagið gefur íslenskri náttúru rödd

Í rökstuðningi dómnefndar fjölmiðlaverðlauna segir að viðurkenningin sé veitt fyrir almenna umfjöllun Samfélagsins um mál sem snerta íslenska náttúru. Samfélagið á Rás 1 hljóti fjölmiðlaverðlaun ráðuneytisins fyrir að gefa íslenskri náttúru rödd á öldum ljósvakans með því að gera umhverfismál að þungamiðju í ritstjórnarstefnu sinni. Þáttarstjórnendur, ásamt sérfræðingum, sem þau hafa fengið til liðs við sig, hafi unnið framúrskarandi starf við umfjöllun um náttúruvernd í víðum skilningi, bendi á ógnir sem steðji að náttúrunni og tengi umfjöllun öðrum málefnum sem eru efst á baugi. Þá veki þátturinn hlustendur til vitundar um hve mikilvæg umhverfismál eru í daglegu lífi þeirra, segir í umsögn. Þáttastjórnendur Samfélagsins eru Leifur Hauksson, Þórhildur Ólafsdóttir og Björn Þór Sigbjörnsson.

Mynd með færslu
 Mynd: ruv

Fyrirmyndarfyrirtæki í ferðaþjónustu

Í rökstuðningi ráðherra vegna Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti segir að þau hjón Kolbrún og Jóhannes hafi komið Hótel Rauðuskriðu í gegn um strangt vottunarferli norræna Svansins, fyrst íslenskra hótela og fyrsti gististaðurinn utan Reykjavíkur. Síðar hafi hótelið fengið gullmerki Vakans, umhverfis- og gæðavottunarkerfi ferðaþjónustunnar. Sterk hugsjón hafi drifið þau áfram og litið sé til Rauðuskriðu sem fyrirmyndarfyrirtækis í ferðaþjónustu í sveitum, ekki bara á Íslandi heldur einnig í umhverfisstarfi hótela á norrænum vettvangi.

Þá segir að Stella Guðmundsson hljóti viðurkenninguna fyrir að hafa skapað náttúruvænt ferðaþjónustufyrirtæki á afskekktu svæði sem annars hefði verið hætt við að legðist í auðn. Með því hafi hún stuðlað að því að dreifa álaginu sem af fjölgun ferðamanna hlýst með því að skapa og bjóða upp á nýjan áfangastað í íslenskri náttúru. Af nærgætni og virðingu fyrir umhverfinu hafi hún opnað augu ferðamanna fyrir undrum náttúrunnar í þessum ævintýradal.

Gunnar Sigurðarson
Fréttastofa RÚV