Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Útlendingastofnun í fjárþröng

20.02.2012 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Stytta mætti um helming þann tíma sem það tekur að afgreiða umsókn um hæli hér á landi með því að veita Útlendingastofnun aukið fé til að ráða fleira starfsfólk, segir forstjóri. Það kosti hátt í eina milljón króna á mánuði að halda uppi fjölskyldu sem leitar hér hælis.

Núverandi forstjóri Útlendingastofnunar, Kristín Völundardóttir, tók við starfinu í júní 2010. Þá hafði ekki verið gerð ársskýrsla í  fimm ár. Í dag eru birtar skýrslur fyrir árin 2008 til 2010. Vegna manneklu hefur ekki verið lokið við ársskýrslu síðasta árs en gert er ráð fyrir að hún líti dagsins ljós fyrr en í mars eða apríl.

Kristín segir að vegna mikillar fjölgunar hælisleitenda hafi sífellt meira af rekstrarfé Útlendingastofnunar farið í að greiða umönnunarkostnað við hælisleitendur. Sú fjárhæð sem Alþingi hafi veitt til málaflokksins hafi aldrei dugað til.  Uppreiknað hafi framlag ríkisins fyrir árið 2010 verið 30 milljónir. Raunkostnaðir hafi þá verið 69 milljónir króna. Sé horft til ársins 2008 hafi 96 milljónir farið til umönnunar hælisleitenda.

Stjórnvöld hafi um áramótin fallist á að taka umönnunarkostnaðinn af Útlendingastofnun. Stofnunin hafi samt sem áður ekki ráð á nema átján starfsmönnum eða tíu færri en árið 2008. Kristín segir að sama ár hafi verið gert átak til að flýta málum hælisleitenda og lögfræðingum fjölgað úr fjórum í sjö. Fimm lögfræðingar hafi hætt hjá stofnuninni í fyrra og hitteðfyrra vegna óánægju með laun og álag. Sífellt lengri tíma taki að afgreiða umsókn um hæli, núna taki það um eitt ár.

Til þess að spara kostnað ríkisins, því allt komi þetta úr sama vasanum, þá þurfi að setja meiri peninga og slagkraft í málsmeðferðina. Það þurfi að auka fjölda lögfæðinga, því fjögurra manna fjölskylda, sem ekki sé óalgengt, kosti um 900 þúsund á mánuði í umönnun. Ef stofnunin hefði ekki nema tvo til þrjá lögfræðinga til viðbótar myndi málsmeðferðarhraðinn nást strax niður í sex mánuði og um leið verði spanaður.