Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Útlendingastofnun frestaði brottvísun

09.03.2016 - 16:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tveir sýrlenskir flóttamenn sem til stóð að senda til Búlgaríu siðastliðinn þriðjudag, eru enn hér á landi. Útlendingastofnun ákvað að bíða með að vísa þeim úr landi á meðan kærunefnd fjallar um umsókn þeirra um dvalarleyfi.

Sagt var í frétt sem birtist á ruv.is  fyrr í dag að engin ákvörðun hafi verið tekin hjá Útlendingastofnun um að bíða með að senda mennina úr landi, heldur væri málið  í höndum lögreglunnar, sem sæi um að fylgja mönnunum. Þetta var samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun.

Stofnunin hefur nú leiðrétt fyrri upplýsingar sínar. Ástæða þess að mennirnir voru ekki sendir til Búlgaríu eins og til stóð er að kærunefnd útlendingamála fjallar nú um umsókn þeirra um dvalarleyfi og var ákveðið að bíða með aðgerðir á meðan kærunefndin skoðar málið.  Upphaflegri umsókn þeirra um hæli hafi hins vegar verið synjað.

Mennirnir Wajden Drbasea og Ahmed Ibrahim hafa verið hér á landi í um átta mánuði. Fyrsti viðkomustaður þeirra í Evrópu var  Búlgaría og því stóð til að senda þá aftur þangað á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Wajden sagði í fréttum Rúv á sunnudaginn að þar biði þeirra ekkert nema líf á götunni, líf semsé lítt betra en lifið í Sýrlandi. Þeir kærðu brottvísunina og stóð til að senda þá úr landi á meðan fjallað er um kæruna.

 

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV