Útilokar samstarf með Sjálfstæðis- og Miðflokki

26.02.2020 - 21:05
Mynd: RÚV / RÚV
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segir að það vera lýðræðismál að kosið verði að vori til í næstu alþingiskosningum en ekki að hausti eins og Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokks vill að gert verði. Þetta kom fram í máli Loga í Kastljósi í kvöld. 

„Það er bæði spurning um það að ný ríkisstjórn fái ásættanlega tíma til að leggja fram góð fjárlög og síðan er það lýðræðismál. Við getum búist við alls konar veðri í lok október og kjósendur eiga heimtingu á því að við frambjóðendur eigum samræður við þá í aðdraganda kosninga. Við munum auðvitað leggja áherslu á það og beita harðri málafylgju fyrir því en auðvitað átta ég mig á því að ákvörðunin er hjá forsætisráðherra,“ sagði Logi, og staðfesti einnig að hann sækist eftir endurkjöri sem formaður flokksins. 

Logi segir að stjórnarandstaðan hafi staðið sig vel á kjörtímabilinu, sem lýsi sér í því að ríkisstjórnin standi höllum fæti.

„Ríkisstjórnin velur sér meðspilara og við erum afgangurinn af því sem eftir er á þingi. Það endurspeglast í því að við erum ólíkir flokkar. Við höfum engu að síður átt ágætt samstarf á köflum, stundum getur bara verið gott fyrir okkur að mæta ríkisstjórninni og gagnrýna hana úr misvísandi áttum. Mér sýnist það hafa tekist ágætlega, ríkisstjórnin er völt og hefur átt erfitt uppdráttar,“ sagði Logi.

Logi sagðist vilja í ríkisstjórn og mynda þá stjórn frá miðju til vinstri. Hann nefndi þar Vinstri græna, Pírata, Viðreisn og Framsóknarflokkinn. Útilokar hann Sjálfstæðisflokkinn?

„Ég hef tvisvar hafnað því að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki. Það var einfaldlega vegna þess að það var enginn málefnagrundvöllur. Ég sé engan hag í því að sækjast eftir einhverjum skammtímagróða fyrir flokkinn eða mig sem persónu. Aðalatriðið er að við náum okkar markmiðum, þó á lengra tíma sé. Stjórnmál eru ekki spretthlaup. Ég vil fylgja samvisku minni og því sem ég lofaði kjósendum,“ sagði Logi.

Hvað með Miðflokkinn?

„Ég get ekki séð neinn málefnalegan grundvöll svo það geti orðið, nei.“

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV