Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Útilokar ekki stjórnarskrárbrot KSÍ

Mynd: RÚV / RÚV

Útilokar ekki stjórnarskrárbrot KSÍ

08.02.2020 - 19:30
Bjarni Már Magnússon, prófessor í lögfræði við HR, segir að það mætti láta reyna á það hvort um mismunun sé að ræða varðandi greiðslur til dómara í efstu deild kvenna og karla í fótbolta. Um 135% munur er á launum fyrir leik í efstu deild karla annars vegar og efstu deild kvenna hins vegar.

Laun fyrir dómgæslu í íslenskri knattspyrnu eru ákveðin eftir erfiðleikastigi. Í þeirri flokkun er efsta deild karla í efsta flokki en kvenna í þeim þriðja - flokki neðar en B-deild karla. Dómarar fengu á síðasta ári 37.600 krónur fyrir dómgæslu í leik í efstu deild karla en 16 þúsund krónur fyrir leiki í efstu deild kvenna, sem er um 135 prósenta munur. Mist Edvardsdóttir leikmaður Íslandsmeistara Vals sagði í íþróttafréttum í fyrradag að þessi munur væri vanvirðing við konur í knattspyrnu.  

Páll Rúnar M. Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður, vakti athygli á málinu í gær á Facebook í kjölfar fréttaflutnings RÚV af málinu. Hann sagði það tímaskekkju að greidd væru hærri laun fyrir dómgæslu hjá körlum en konum í sömu deild. Þá telur hann að í því felist ólögmæt meingerð gagnvart þeim knattspyrnukonum sem búa við þennan órétt, og vitnaði í stjórnarskrána.

Bjarni Már Magnússon, lagaprófessor við HR, hefur rannsakað jafnrétti í íþróttum. Hann segir KSÍ bera ábyrgð á þessum mun. „Þetta er val KSÍ að hafa þetta svona það er enginn sem skyldar KSÍ að hafa þetta svona þó þetta sé byggt á fyrirmyndum erlendis frá,“ segir Bjarni.

Hann segir möguleika að tilkynna mismunun sem þessa til eftirlitsstofnunar EFTA. Íþróttahreyfingar njóti hins vegar mikils sjálfstæðis. „Tæk leið til að þrýsta á íþróttahreyfinguna, sem hefur verið notuð, er að setja ákvæði um jafnfréttismál í alla samninga við íþróttahreyfinguna, þetta er eitthvað sem sveitarfélögin hafa verið mjög virk í að gera, að hreinlega setja skilyrði um að íþróttahreyfingin sé með sín kynjajafnréttismál í lagi,“ segir Bjarni.

Gæti þessi mismunun mögulega verið brot á stjórnarskrá?
„Það er eitthvað sem mætti láta reyna á, auðveldasti farvegurinn er þá kærunefnd jafnfréttismála en þá þyrfti einhver dómari að vera tilbúinn að fara þangað,“ segir Bjarni Már.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, vildi ekki tjá sig um málið þegar leitast var eftir því í gær en KSÍ birti yfirlýsingu í gærkvöld vegna málsins.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Már Magnússon prófessor í lögfræði hefur rannsakað jafnrétti í íþróttum

Tengdar fréttir

Íslenski fótboltinn

KSÍ: Fyrirkomulag sem hefur verið við lýði í áraraðir

Fótbolti

„Vanvirðing og ömurlegt í rauninni“

Íslenski fótboltinn

Fá 135% meira fyrir að dæma hjá körlunum en konunum