Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Útilokar ekki að samið verði áður en vinnustöðvun hefst

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
Það er enn langt í land í samningaviðræðum Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins. Það sé sannarlega ekki útilokað að samningar náist áður en tólf tíma vinnustöðvun brestur á í fyrramálið. Samninganefndir sátu á sjö klukkustunda löngum fundi í gær og næsti fundur er boðaður klukkan hálf tvö í dag. 

„Báðir aðilar eru virkilega að leggja sig fram um að reyna að ná þessu saman. Við áttum mjög langan og ítarlegan fund í gær og það er fundur á eftir. Þannig að við erum bara að reyna eins og við getum. En það er ennþá talsvert eftir að klára og langt í land. En á meðan við vinnum að þessu er alltaf von til þess að við náum þessu saman,“ segir Hjálmar. 

Eru einhverjar líkur á að þið náið þessu saman áður en þessi vinnustöðvun hefur verið boðuð í fyrramálið?

„Það er sannarlega ekki útilokað. En eins og ég segi það er langt í land og ég vil ekki vekja vonir hjá fólki. En einhvern tímann sagði einhver: vilji er allt sem þarf. Á meðan við tölum ennþá saman er von. En það er mikið eftir og við þurfum bara að sjá til lands og ná samningi til þess að vinnustöðvuninni sé aflétt. Við fórum af stað með hana til þess að þrýsta á um að fá samning,“ segir Hjálmar. 

Þannig að það er alla vega einhver flötur sem þið getið mæst á?

„Við erum að spinna saman þráð áfram. Við hættum í gær með það að augnamiði að skoða ákveðna hluti hvor í sínum ranni og fara svo yfir það á fundi sem hefst klukkan hálf tvö í dag,“ segir Hjálmar. 

Lengsta vinnustöðvunin til þessa

Vinnustöðvunin hefst klukkan tíu í fyrramálið og stendur til tíu annað kvöld, náist ekki samningar fyrir þann tíma. Verkfallið nær til tökumanna og ljósmyndara og blaðamanna á netmiðlum Árvakurs, Torgs, Sýnar og RÚV, sem þiggja laun samkvæmt samningum Blaðamannafélagsins. Þetta er lengsta verkfallið hingað til.

„Vinnustöðvun er auðvitað óyndisúrræði en það eru réttindi launafólks til að þrýsta á um kröfur sínar að fara í verkfall. Við höfum gert það núna í fyrsta skipti í tæp 42 ár. Þannig að það sýnir að við erum seinþreytt til vandræða og sannarlega erum við sannarlega mjög einbeitt í að finna lausn á málinu og mér finnst ég finna mikinn skilning hjá fyrirtækjunum sem eru að semja við okkur að reyna að ná þessu saman og virkilega finna flöt á því,“ segir Hjálmar.