Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Útgöngubann í Bólivíu

22.03.2020 - 07:17
epa08305349 Bolivian soldiers patrol to prevent gatherings in the streets as part of the measures against the spread of the coronavirus in Santa Cruz, Bolivia, 18 March 2020. Bolivian Governement reported 12 cases with COVID-19.  EPA-EFE/JUAN CARLOS TORREJON
Lögreglumenn í Santa Cruz í Bólivíu fylgjast með því að samkomubann sé virt. Nú þurfa þeir að fara að framfylgja útgöngubanni stjórnvalda. Mynd: EPA-EFE - EFE
Stjórnvöld í Bólivíu gáfu í gær út tilskipun um allsherjar útgöngubann í landinu öllu, til að hamla útbreiðslu kórónuveirunnar sem nú heldur heiminum í heljargreipum. Sama dag tilkynnti yfirkjörstjórn landsins að fyrirhuguðum þingkosningum, sem halda átti í maí, hafi verið frestað um óákveðinn tíma. Hálf tólfta milljón manna býr í Bólivíu.

Aðeins 19 tilfelli af COVID-19 smiti hafa verið greind þar til þessa og ekkert dauðsfall, en stjórnvöld fylgja fordæmi margra Mið- og Suðurameríkuríkja, sem gripið hafa til róttækra aðgerða í forvarnarskyni, þótt hlutfallslega fá tilfelli hafi greinst. Má þar nefna Argentínu og Kólumbíu, sem bæði hafa lýst yfir útgöngubanni á landsvísu.

Líkt og annars staðar þar sem útgöngubann ríkir er íbúum heimilt að verða sér úti um matvæli og lyf, og fólk sem starfar í heilbrigðisgeiranum, við löggæslu og önnur störf sem teljast samfélagslega miklivæg, fær að sinna þeim áfram. Að öðru leyti á fólk að halda sig heima, að viðlögðum sektum.

Rúmlega 3.700 Covid-19 smit hafa verið staðfest í Mið- og Suður Ameríku til þessa, og 45 dauðsföll. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV