Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Útgáfa starfsleyfis tók 300 klukkustundir

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson
Langanesbyggð vill að hafin verði sérstök rannsókn á lagaheimildum Umhverfisstofnunar fyrir gjaldtöku vegna starfsleyfis fyrir urðunarstað í sveitarfélaginu. Það sé vandséð að nærri 300 klukkustundir hafi tekið starfsmenn stofnunarinnar að vinna umsókn um leyfið og innheimta fyrir það á fjórðu milljón króna.

Langanesbyggð er með urðunarstað fyrir sorp á Bakkafirði. Þegar starfsleyfi þar rann út 2013 þurfti að ráðast í deiliskipulag og fleira til að geta endurnýjað starfsleyfið. Umhverfisstofnun gaf út nýtt leyfi árið 2018.

Standist ekki að vinnan við leyfið hafi tekið þennan tíma

Reikningurinn fyrir það hljóðaði upp á rúmar 3,7 milljónir króna, fyrir tæplega 300 klukkustunda vinnu. Elías Pétursson, sveitarstjóri í Langanesbyggð, segir að engan veginn sé hægt að sjá að vinnan við starfsleyfið hafi tekið allan þennan tíma. „Og þá verður að horfa sérstaklega til þess að starfsleyfi eru að stórum hluta staðlað plagg.“

Töldu að aðeins yrði innheimt ákveðið lágmarksgjald

Hann segir að Umhverfisstofnun gefi út að innheimt sé ákveðið lágmarksgjald sem eigi að duga fyrir hefðbundnu starfsleyfi. Fyrir fram hafi sveitarfélagið engar upplýsingar haft aðrar en að svo yrði í þeirra tilfelli. „Svo líður tíminn og þetta tekur töluverðan tíma og bara í lok vinnunnar þá fáum við að fá upplýsingar um að þetta séu miklu, miklu hærri tölur og miklu, miklu fleiri tímar.“    

Skýringar Umhverfisstofnunar standist ekki

Sveitarfélagið hafi leitað eftir skýringum frá Umhverfisstofnun á þessum tímafjölda og þegar skoðaðar séu tímaskriftir starfsmanna þar hætti málið að ganga upp. „Fyrir okkur þá er það ákaflega órtúlegt að það hafi kostað vel að ganga fjórar milljónir að útbúa starfsleyfi, yfirfara reyndar athugasemdir sem voru ekki margar og höfðu allar held ég komið fram áður,“ segir Elías.

Vilja að sérstök rannsókn verði sett af stað   

Á fundi sveitarstjórnar Langanesbyggðar í gær var lagt fram erindi til Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, unnið af lögfræðingi sveitarfélagsins, meðal annars í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þar kemur fram að sveitarstjórn telur afar mikilvægt að umrædd gjaldtaka Umhverfisstofnunar verði könnuð frekar og að sérstök rannsókn verði sett af stað af hálfu umhverfisráðherra og kannaðar lagaheimildir stofnunarinnar til gjaldtöku af því tagi sem átti sér stað umrætt sinn og framkvæmd hennar.

Bíða viðbragða hins opinbera 

„Núna liggur þetta náttúrulega bara hjá ráðuneytinu,“ segir Elías. „Við erum búin að óska eftir því að ráðuneytið skoði þetta og það fór afrit á þessu til ríkisendurskoðanda. Þannig að núna erum við kannski að bíða eftir viðbrögðum hins opinbera um það hvort þetta geti talist eðlilegt og á hvað forsendum. Ég legg áherslu á að þegar við leggjum af stað í verkefnið þá er okkur kynnt það að þetta eigi að kosta tvöhundruð sjötíu og eitthvað þúsund og við endum í að ganga fjórum milljónum án þess að það sé í raun flaggað eða nokkuð að gert.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV