Utanvegaakstur norðan Kerlingarfjalla

29.06.2019 - 15:03
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook Ferðaklúbbsins 4x4
Akstur utan vega virðist verða sífellt algengari. Nú má sjá ljót hjólför eftir tvær bifreiðar norðan Kerlingarfjalla. Á sama stað og franskir ferðamenn keyrðu utan vegar í fyrra. Þeir fengu 400 þúsund króna sekt.

Ferðaklúbburinn 4x4 tók sig til og lagfærði skemmdirnar eftir ferðamennina í fyrra. Þegar félagar í klúbbnum mættu á staðinn nú fyrir stuttu til að skoða lagfæringarnar ráku þeir augun í nýjar skemmdir. Sveinbjörn Halldórsson formaður ferðaklúbbsins segir skemmdirnar mjög ljótar. „Mönnum sárnar þetta, þetta virðingarleysi fyrir umhverfinu.“

Sveinbjörn segir ekki vitað hverjir voru á ferðinni í þetta skiptið en hann mun funda með Umhverfisstofnun vegna atviksins í næstu viku. 

Mynd með færslu
 Mynd: Ferðaklúbburinn 4x4
Hér má sjá förin frá því í fyrra þegar franskir ferðamenn keyrðu utan vegar, eftir að Ferðaklúbburinn 4x4 lagfærði þau. Myndin er tekin fyrr í mánuðinum.

Hann segir menn velta fyrir sér hvort fólk geri þetta sér til skemmtunar eða hvort þetta sé hugsunarleysi. „Akstur utan vegar er lögbrot, hann er bannaður, það er spurning hvort það þurfi að fara setja upp skilti,“ segir Sveinbjörn. 

Hann segir meðlimi ferðaklúbbsins ætla að fara aftur upp eftir til að laga nýju ummerkin. Í fyrra hafi þau stungið undir jarðveginn til að lyfta honum aftur upp. „Eftir lagfæringar í fyrra þá var útkoman lygilega góð.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ferðaklúbburinn 4x4
helenars's picture
Helena Rós Sturludóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi