Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Út í bíl að gera músík, er regla í Súðavík“

Mynd: Hjálmar / RUV

„Út í bíl að gera músík, er regla í Súðavík“

26.06.2019 - 14:57

Höfundar

Á leið sinni um Ísafjarðardjúp rataði hljómsveitin Hjálmar á rjúkandi kaffiilm sem stóð úr stórum sendibíl við íbúðarhús í Súðavík. Í bílnum hittu þeir fyrir tónlistarmanninn Mugison og Rúnu konu hans, fengu tíu dropa og glænýtt lag úr smiðju Mugisons.

Þeir félagar í reggísveitinni Hjálmum voru rétt að jafna sig á veru sinni á göldróttum slóðum á Ströndum þegar þeir héldu inn Ísafjarðardjúp í átt að öðrum mögnuðum stað, nefnilega Vagninum á Flateyri, sem er þeirra næsti viðkomustaður á hringferð þeirra um landið. Hún styttist nú óðum hringferð þeirra Hjálma en eingöngu þrennir tónleikar eru eftir á Vesturlandi áður en þeir loka hringnum í Hafnarfirði sunnudaginn 30. júní. Hjálmar voru í þann mund að nálgast Súðavík við Álftafjörð þegar þeir hringdu í tónlistarmanninn Mugison sem býr þar með spúsu sinni henni Rúnu Esradóttur, sonunum Dýra og Eldari og hundinum Skugga.

„Einmitt, það var enginn fyrirvari. Ég kann að meta það. Enginn tími til að hugsa, það er best þannig,“ segir Örn Elías eða Mugison um það að hafa fengið símtal frá Kidda í Hjálmum með nokkurra mínútna fyrirvara, þar sem þeir voru hinum megin í firðinum. Mugison og Rúna tóku á móti Hjálmum á hlaðinu þar sem þau voru að dútla í glæsilegum og risastórum ferðabíl fjölskyldunnar. Þar hefur tónlistarmaðurinn sérinnréttað bílinn fyrir tónleikaferðalög, þar sem nóg pláss er fyrir hljóðfæri og önnur tól, svefnaðstaða á tveimur hæðum fyrir hljómsveitina eða fjölskylduna, kaffistofa, hljóðver og ýmislegt fleira. Þó að Mugison búi svo vel að hafa hljóðver í bílskúrinni þá fer hann oft út í bíl til að búa til bílamúsík. „Út í bíl að gera músík, það er regla hér í Súðavík,“ segir Örn.  

Kossaflóð með Mugison er glænýtt lag af væntanlegri plötu. Hér í lifandi flutningi í 360° myndbandi.

Mugison er einnig á tónleikaferðalagi um landið og hitaði meira að segja Vagninn upp á Flateyri fyrir þá félaga í Hjálmum, síðasta laugardag. Eins og Hjálmamenn er Mugison einnig mikill aðdáandi Laugarhóls á Ströndum og reynir ávallt að koma þar við á sínum ferðalögum. „Það er ekki verra að vera þarna á veturna, ég mæli með því. Ég held að Hjálmar og ég sjálfur ættum að gera plötu þarna í vetur saman. Hittumst í hálfan dag,“ segir Mugison og hótar því að fyrirvarinn á þeim fyrirætlunum verði nánast enginn eins og hann fékk að reyna við heimsókn Hjálmanna í Súðavík.

Mynd með færslu
 Mynd: Hjálmar - RUV
Rúna Esradóttir og Örn Elías Guðmundsson í dyragætt Mugison-bílsins.

Þeir Hjálmamenn fengu þau Mugison og Rúnu til að taka með sér lagið um borð í rútunni og fyrir valinu varð glænýtt lag úr smiðju Mugisons sem væntanlegt er innan tíðar á nýrri plötu kappans. Lagið heitir Kossaflóð. „Þetta var geggjað kaffi, þetta var geggjað lag og alltaf gaman að koma til ykkar,“ segir trommarinn Helgi Svavar rétt áður en upptökutækinu var hleypt af stað.

Mynd með færslu
 Mynd: Hjálmar - RUV
Helgi Svavar trommari Hjálma og Mugison við upptökur.

Upplýsingar um ferðalag tónlistarmannsins Mugisons og fjölskyldu um Ísland þvert og endilangt, á hinum glæsilega Mugimobile má finna hér. Svo má fylgjast með framgangi Hjálma á hringferð sinni hérna.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hjálmar mættu Kölska í Bjarnarfirði

Tónlist

Grilllokið glefsar sem kjaftur út í vindinn

Tónlist

„Aðflugan á það til að setjast að“

Tónlist

„Ég er hérna svona af og til“