Úrslitin ráðast í Gettu betur

Úrslitin ráðast í Gettu betur

13.03.2020 - 19:15
Ljóst verður í kvöld hvaða skóli stendur uppi sem sigurvegari í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, þegar lið Borgarholtsskóla og Menntaskólans í Reykjavík mætast í úrslitum.

Keppnin fer fram í nær áhorfendalausum sal en ákveðið var að grípa til þeirra aðgerða fyrr í vikunni eftir að skólastjórnendur beggja skóla óskuðu eftir því. Að öðru leyti fer keppnin fram eins og venjulega og ljóst að spennan verður, þrátt fyrir allt, mikil. 

Lið Borgó skipa þau Fanney Ósk Einarsdóttir, Magnús Hrafn Einarsson og Viktor Hugi Jónsson. Í liði MR eru Ármann Leifsson, Birta Líf Breiðfjörð Jónasdóttir og Víkingur Hjörleifsson.

Spurningahöfundar og dómarar eru Ingileif Friðriksdóttir, Vilhelm Anton Jónsson og Sævar Helgi Bragason. Spyrill er Kristjana Arnarsdóttir. Bein útsending frá keppninni hefst á RÚV klukkan 19:45 en einnig má horfa á hana í spilaranum hér fyrir ofan.