„Úrræði fyrir lágtekjuhópa eru oft fátækleg“

04.12.2019 - 18:16
Mynd með færslu
 Mynd: burst.shopify.com
Íslenska barnabótakerfið er sérkennilega útfærð fátæktarhjálp. Það er flókið og erfitt að greina í því heildstæða hugsun. Þetta er niðurstaða skýrslu sem Kolbeinn Stefánsson, doktor í félagsfræði, vann fyrir BSRB og var kynnt í morgun. Fram kemur að barnabótakerfið hér stingi í stúf við kerfi annars staðar á Norðurlöndunum því það gagnist nær eingöngu tekjulægstu fjölskyldunum.

Sver sig í ætt við önnur íslensk kerfi

Niðurstaða Kolbeins er sú að barnabótakerfið sé lágtekjumiðað kerfi sem gagnast í raun bara tekjulægstu hópunum og hann segir það sverja sig mjög í ætt við önnur íslensk bótakerfi. „Þau eru almennt frekar lágtekjumiðuð og markmiðið að beina fjármagninu að þeim sem hafa minnst á milli handanna. Það er í sjálfu sér gott og göfugt markmið en sérkenni íslensku kerfanna er kannski það að skerðingarmörk liggja alltaf mjög lágt og skerðingarhlutföllin eru yfirleitt há. Eins og í barnabótadæminu þá er byrjað að skerða bæturnar fljótlega þegar komið er upp fyrir lægstu laun fyrir fullt starf á almennum markaði og ef við horfum á vísitölufjölskyldu, par með tvö börn. Þegar slík fjölskylda er komin upp í meðalatvinnutekjur er búið að skerða allar barnabætur. Á hinum Norðurlöndunum, fyrir utan Danmörku, eru barnabætur einfaldlega bara flatar upphæðir óháðar tekjum. Danmörk er með tekjutengdar barnabætur, eins og Ísland, en þar liggja skerðingarmörkin miklu hærra í tekjudreifingunni og skerðingarhlutfallið er umtalsvert lægra.“

Ólík markmið milli landa

Kolbeinn segir að markmiðið með íslenska kerfinu sé að styðja við allra tekjulægstu fjölskyldurnar þannig að það sé minni munur á stöðu þeirra og efnameiri fjölskyldna. Sama hugsun sé við lýði í danska kerfinu en þar nái bæturnar til mun breiðari hóps, byrja ekki að skerðast fyrr en fólk er komið yfir meðaltekjur. Í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi þar sem ekki er tekjutenging sé markmiðið ekki að jafna stöðu ólíkra tekjuhópa heldur ólíkra fjölskyldugerða. Með bótunum eigi að koma til móts við þann kostnað sem barneignir hafa í för með sér fyrir fólk almennt. Fólk hafi svigrúm til að velja hversu mörg börn það vill eignast og það eigi að ýta undir frjósemi. Fjárhagsleg staða setji því síður skorður. 

Segir einstæða foreldra koma illa út

Kolbeinn segir að íslenska kerfið sé sérkennilega útfærð fátæktarhjálp, ómarkvisst og erfitt að greina í því heildstæða hugsun. Hann telur það þurfa gagngerrar endurskoðunar við og gerir sérstaklega athugasemdir við hvernig einstæðir foreldrar koma út úr kerfinu. Þeir fá hærri greiðslur en fólk í sambúð en hjá þeim séu skerðingarmörkin líka helmingi lægri. „Þannig að fjölskyldur einstæðra foreldra þurfa að hafa mun lægri tekjur til þess að barnabæturnar byrji að skerðast. Einstæðir foreldrar koma aðeins betur út úr kerfinu en foreldrar í sambúð en ekki mikið betur og þegar við horfum til þess að einstæðir foreldrar og börn þeirra eru á meðal þeirra hópa sem líklegastir eru til að búa við fjárhagsþrengingar og fátækt á Íslandi þá bendir það til þess að ekki sé nóg gert fyrir þennan hóp.“ 

Barni númer tvö ætti að fylgja minni kostnaður, ekki meiri

Kolbeinn gagnrýnir líka að bótaupphæð með fyrsta barni sé lægri en með barni númer tvö - og hann veltir því fyrir sér hvers vegna uppbótargreiðslur fáist vegna barna undir sjö ára aldri. „Almennt séð myndi maður ætla að það væri einhvers konar stærðarhagkvæmni í rekstri heimila. Fyrir fyrsta barn þarftu að kaupa allt nýtt, fyrir annað barn geturðu að einhverju leyti endurnýtt föt og leikföng. Þess vegna er dálítið skrítið að það sé hærri upphæð fyrir börn umfram eitt. Önnur mótsögn í kerfinu er sú að því fleiri sem börnin eru á heimilinu því hærri eru skerðingarhlutföllin í kerfinu þannig að það er gefið meira með annarri hendinni en tekið meira með hinni. Varðandi uppbót fyrir börn á aldrinum 0-6 ára þá eru erlendar rannsóknir sem benda til þess að kostnaður vegna barna aukist þegar þau eldast. Þau krefjist aðallega meiri tíma og orku þegar þau eru yngri. Það sem kannski helst vekur furðu þegar maður horfir á þessar stærðir er að til að skilgreina þær þyrftum við að hafa áreiðanleg gögn um útgjaldaþörf mismunandi heimila eftir fjölda barna, aldri barna og slíku. Þá gætum við áttað okkur á því hvort barnabótakerfið mæti þörfum barnafjölskyldna. Slíkar rannsóknir hafa ekki verið unnar.“ 

Lágtekju miðað kerfi sem gagnist lágtekjuhópum ekkert sérstaklega vel

Á næsta ári hækka lágmarkslaun í 330 þúsund krónur, skerðingarmörk barnabóta verða þá við 325 þúsund krónur og þó að kerfið sé lágtekjumiðað fá lágtekjufjölskyldur í mörgum tilvikum hærri bætur í norrænu kerfunum. Kolbeinn segir það skjóta skökku við að skerða bætur til fólks á lágmarkslaunum. Það séu ákveðnar vísbendingar um að kerfið gæti nýst betur. „Jafnvel fyrir lágtekjuhópana lítur íslenska barnabótakerfið ekkert sérstaklega vel út, það er margt sem bendir til þess að það mætti sníða það betur að þeim hópum sem mest þurfa á því að halda,“ segir Kolbeinn. 

Ódýr útgáfa af danska kerfinu

Í skýrslunni kemur fram að aðgerðir sem miða að því að bæta hag breiðs hóps komi tekjulágum hópum oft betur en aðgerðir sem sérstaklega snúa að láglaunafólki.

Væri betra að færa kerfið nær því danska, þar byrja bæturnar ekki að skerðast fyrr en tekjur foreldra eru orðnar hærri en meðaltekjur. Skerðingin er svo frekar aflíðandi, þetta er svona dönsk fjallshlíð á meðan skerðingin hér er frekar brött og bætur skerðast um leið og par er komið með 30% af meðaltekjum. Væri hægt að horfa til danska kerfisins? 

„Það væri vel hægt, íslenska kerfið er náttúrulega svona ódýrari útgáfa af danska kerfinu. Það er þekkt í rannsóknum á velferðarmálum að velferðarúrræði sem beinast fyrst og fremst að fátæku fólki þau hafa tilhneigingu til að vera fátækleg. Það liggur dálítið í því að ef að millistéttin og millitekjuhóparnir eiga ekki hlutdeild í kerfinu eða úrræðinu hafa þeir takmarkaðan áhuga á því. Það eru rök fyrir því, upp á það að viðhalda öflugu barnabótukerfi, að það væri heppilegt að fara dönsku leiðina. Hvort það sé svo endilega gott eða æskilegt er eitthvað sem fólk mun hafa ólíkar skoðanir á eftir sinni pólitísku sannfæringu.“  

En kæmi til greina að hans mati að afnema tekjutenginguna og færa kerfið nær því sænska, finnska og norska? 

„Ég hef ekki sérstaklega sterka skoðun á þvi, mér finnast vera veigamikil og góð rök fyrir því að hátekjufólk fái ekki fullar barnabætur. Við tökum þetta úr sameiginlegum sjóðum og þetta snýst um forgangsröðun verkefna. Það sem mér finnst skipta meira máli á þessum tímapunkti er að endurskoða kerfið og gefa okkur skýr markmið. Markmiðin verða í eðli sínu pólitísk. Það er ekkert að því að vera með lágtekjumiðað kerfi. Það er heldur ekkert að því að vera með kerfi sem miðar fyrst og fremst að því að jafna lífskjör milli barnafjölskyldna og annarra en það þarf að vera skýrt hvort markmiðið það er eða hvaða vægi markmiðin eiga að hafa í barnabótakerfinu og það þarf að byggja kerfið á áreiðanlegum og traustum gögnum um það hver útgjaldaþörfin er.“

Epli og appelsínur?

Er hægt að bera norrænu kerfin saman? Er ekki hætt við því að verið sé að bera saman epli og appelsínur? Gefur það að bera saman barnabæturnar góða mynd af því hvernig stuðningi við barnafjölskyldur er háttað í þessum ríkjum? 

„Já, það gerir það en auðvitað þarf líka að skoða stærri myndina, samspil við önnur bótakerfi, skattkerfið, atvinnuþátttöku og slíkt. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að á Íslandi búum við heilt yfir við ofboðslega góð lífskjör. Ef við horfum til barnafátæktar stöndum við okkur betur en Svíþjóð, til dæmis. Á Íslandi er barnafátækt vandamál sem er bundið við ákveðna hópa, einstæða foreldra og börnin þeirra, öryrkja og börnin þeirra. Utan þeirra hópa er þetta ekki stórt vandamál. Þess vegna finnst manni að það ætti að vera hægt, með tiltölulega auðveldum hætti, að sníða kerfi sem hentar betur þeim hópum sem þurfa á stuðningi að halda.“

Hvaða breytingar myndirðu helst vilja sjá? 

„Ef ég ætti að nefna eina aðgerð sem myndi hafa veruleg áhrif á barnafátækt þá væri það að færa skerðingarmörk barnabóta einstæðra foreldra upp að skerðingarmörkum foreldra í hjúskap. Það myndi hækka tekjur nokkuð margra heimila einstæðra foreldra með lágar tekjur.“  

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi