Miklar rigningar síðustu daga hafa valdið flóðum víða í Danmörku, einkum við vesturströnd Jótlands og Limafjörð. Æfingavöllur knattspyrnufélagsins í Ribe, skammt frá Esbjerg, er á kafi í 120 sentimetra djúpu vatni og víða flæðir yfir götur og torg. Jens Mølgaard, verkefnastjóri hjá slökkviliðinu á Suður-Jótlandi, segir sína menn og tæki vart hafa undan að dæla óvelkomnu vatni í annan og betri farveg, enda slíkur farvegur vandfundinn í þessu mikla vatnsveðri.