Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Úrhelli og flóð á Jótlandi

22.02.2020 - 23:03
Erlent · Danmörk · Flóð · Evrópa · Veður
Mynd með færslu
Vallarstjórinn í Ribe segir ekki annað spilandi á vellinum en sundknattleik þessa dagana, en vatnið sé þó líklega heldur kalt til þess líka.  Mynd: DR
Miklar rigningar síðustu daga hafa valdið flóðum víða í Danmörku, einkum við vesturströnd Jótlands og Limafjörð. Æfingavöllur knattspyrnufélagsins í Ribe, skammt frá Esbjerg, er á kafi í 120 sentimetra djúpu vatni og víða flæðir yfir götur og torg. Jens Mølgaard, verkefnastjóri hjá slökkviliðinu á Suður-Jótlandi, segir sína menn og tæki vart hafa undan að dæla óvelkomnu vatni í annan og betri farveg, enda slíkur farvegur vandfundinn í þessu mikla vatnsveðri.

Undir venjulegum kringumstæðum yrði einfaldlega brugðið á það ráð að opna flóðhlið að Vaðhafinu til að tæma götur Ribe því regnvatni sem ræsin anna ekki, en það er ekki hægt núna vegna óvenju hárrar sjávarstöðu. Sömu sögu er að segja í öðrum bæjum við Vaðhafið og Limafjörð. Veðurspár gera ráð fyrir áframhaldandi stórrigningum. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV