Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Úr rúllustiganum í fjórðu iðnbyltinguna

Mynd: Forlagið / Forlagið

Úr rúllustiganum í fjórðu iðnbyltinguna

23.09.2019 - 17:03

Höfundar

Í bókinni Skjáskot gerir Bergur Ebbi Benediktsson tilraun til að greina samtímann, og bera kennsl á hvernig sífellt hraðari tækniþróun fjórðu iðnbyltingarinnar er að hafa áhrif á hug og hjarta mannskepnunnar. En Bergur telur að tæknin muni ekki endilega þróast á þann hátt sem margir spá fyrir um þessar mundir.

„Samfélagsmiðlar, snjallsímanotkun, fyrirbæri sem tengjast fjórðu iðnbyltingunni, gervigreind og svo framvegis eru í einhverri kúrvu núna,“ segir Bergur Ebbi í viðtali í Lestinni á Rás 1 um nýja bók sína, Skjáskot. „Það er ótrúlega freistandi að hugsa að hlutirnir muni bara halda áfram í sömu átt, tæknin verði meira og meira innbyggð í okkur, gervigreind stjórni okkur meira og við lifum einhverju avatar-lífi á samfélagsmiðlum í stafrænum heimi. Það er rosalega létt að sjá kúrvuna fara þangað bara eftir eina kynslóð. En ég er ekki viss um að þetta fari svona.“

Viðtalið var tekið á flakki upp og niður rúllustigana fyrir framan Hagkaup og H&M í Kringlunni, allt þar til öryggisvörður skarst í leikinn – það er ætlast til þess að maður biðji um leyfi hjá rekstrarfélagi verslunarmiðstöðvarinnar.

„Sagan hefur sýnt okkur að tækniþróun og þróun samspilsins milli manns og tækni fer yfirleitt ekki eftir svona einfaldri kúrvu. Það nær yfirleitt jafnvægi á einhverjum tímapunkti. Það má vel vera að þessi tækni fari bráðum að ná einhverju jafnvægi, eins og sjónvarp og útvarp var við það að umbylta heiminum og varð svo bara hversdagslegur hluti af lífi okkar. Svo fann ég alls konar fyndnari dæmi, til dæmis rúllustigann,” segir Bergur Ebbi.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristján G. - Forlagið
Bergur Ebbi í rúllustiga.

„Rúllustigarnir eru svo áhugavert fyrirbæri því þettta hefur verið alveg ótrúlega mögnuð tækni þegar hún kom fram í lok 19. aldarinnar. Hún er þetta gömul en hefur eiginlega ekki breyst neitt síðan, því hún fann strax þetta fullkomna jafnvægi milli hins guðlega og hins hversdagslega. Það er eitthvað rosalega tignarlegt við rúllustiga, en samt eitthvað svo rosalega jarðbundið sem stoppar þá af – þess vegna eru þeir klassískir og verða alltaf til. Ég held að á endanum tökum við aldrei tækni í sátt nema hún sé með annan fótinn kirfilega fastan í hinu hlutlæga og teygir sig svo hins vegar upp. Ég sé einhverja hliðstæðu í rúllustiganum og upprisu gervigreindar og fleira. Ég held að tækni sem við náum engum skala eða skilningi á nái aldrei almennilegu flugtaki.”

Tengdar fréttir

Lögfræðingur, uppistandari eða rithöfundur?

Bókmenntir

Bergur Ebbi: Á milli spjaldanna

Spilling, Facebook og Bergur Ebbi