Úr fullu starfi í hálft vegna kyrrsettra véla

30.08.2019 - 13:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson - RÚV
Hundrað og ellefu flugmenn færast niður í 50 prósent starf og þrjátíu flugstjórar verða færðir í tímabundið starf flugmanns hjá Icelandair. Þetta er gert til að lágmarka áhrif kyrrsetningar MAX-vélanna á rekstur félagsins. Þetta kemur til viðbótar því að vetraráætlun hefur þegar haft áhrif á störf um hundrað flugmanna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair. Þar segir einnig að Icelandair geri ekki ráð fyrir að taka Boeing 737-MAX flugvélar á rekstur á ný fyrr en í byrjun næsta árs. Upphaflega hafði félagið gert ráð fyrir níu slíkum vélum í flotanum á þessu ári. Snemma á næsta ári hafi verið áætlað að fá afhentar fimm nýjar MAX-vélar. Þetta hafi mjög neikvæð áhrif á rekstur félagsins og flugáætlun þess í vetur. 

Breytt störf hjá nær helmingi flugmanna og flugstjóra

Icelandair hafi því þurft að bregðast við með því að aðlaga fjölda áhafnarmeðlima að flugflota félagsins. Nú þegar hafi störf tæplega 100 flugmanna tekið breytingum yfir veturinn. Til viðbótar munu því 111 flugmenn færast niður í 50 prósent starf og 30 flugstjórar færast í starf flugmanns. Þetta eru sem fyrr segir tímabundnar breytingar yfir fjögurra mánaða tímabil, frá 1. desember til 1. apríl 2020. Tæplega 550 flugmenn og flugstjórar starfa hjá félaginu. 

Viðræður við Boeing hafnar

Þá segir einnig að viðræður félagsins við Boeing varðandi bætur vegna þess fjárhagslega tjóns sem hefur hlotist sé þegar hafnar. Icelandair muni leggja mesta áherslu á að lágmarka tjón félagsins og áhrif kyrrsetningarinnar á farþega og íslenska ferðaþjónustu. 

Í uppgjöri annars ársfjórðungs hjá félaginu voru fjárhagsleg áhrif MAX kyrrsetningarinnar metin á um 19 milljarða króna miðað við að kyrrsetningin stæði út októbermánuð. Ekki liggja fyrir áætluð viðbótaráhrif vegna framlengdrar kyrrsetningar. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

helenars's picture
Helena Rós Sturludóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi