Úr ensku úrvalsdeildinni í Breiðablik

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook-síða Breiðabliks

Úr ensku úrvalsdeildinni í Breiðablik

09.12.2019 - 18:30
Landsliðskonan Rakel Hönnudóttir hefur gengið í raðir Breiðabliks og mun spila með liðinu í Pepsi Max-deild kvenna næsta sumar. Rakel kemur frá Reading á Englandi.

Breiðablik greinir frá félagsskiptunum á Facebook-síðu sinni. Rakel lék áður með Breiðabliki árin 2012 til 2017 þar sem hún lék 158 leiki fyrir Breiðablik og skoraði í þeim 68 mörk. Hún vann Íslandsmeistaratitilinn með félaginu 2015 og bikartitla 2013 og 2016.

Rakel yfirgaf Breiðablik eftir tímabilið 2017 þegar hún samdi við Limhamn Bunkeflo í Malmö í Svíþjóð. Eftir eitt tímabil í Svíþjóð fór Rakel til Reading í ensku úrvalsdeildinni þar sem hún hefur leikið frá því í janúar á þessu ári. Rakel á 100 landsleiki að baki fyrir Íslands hönd og er tíunda á lista yfir leikjahæstu leikmenn landsliðsins frá upphafi.

Nú hefur þessi fjölhæfi leikmaður ákveðið á snúa aftur heim til Íslands og leika með Breiðabliki á ný. Hún er annar leikmaðurinn sem félagið semur við á skömmum tíma en Sveindís Jane Jónsdóttir kom á láni frá Keflavík fyrr í vikunni.