Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Upptök frekar í Bárðarbungu en Gengissigi

Mynd með færslu
Dyngjujökull og Jökulsá á Fjöllum árið 2015 Mynd: Ómar Ragnarsson - RÚV
Jarðhitavatnið sem mælst hefur í Jökulsá á Fjöllum er ekki úr lóninu Gengissigi í Kverkfjöllum heldur á það sennilega upptök vestar í Vatnajökli, hugsanlega í Bárðarbungu þar sem jarðhiti hefur aukist undanfarið.

Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu Veðurstofu Íslands. Vísindamenn frá Jarðvísindastofnun, Almannavörnum og Veðurstofunni fóru yfir stöðu mála í dag í kjölfar aukinnar rafleiðni sem undanfarið hefur mælst í Jökulsá á Fjöllum. Ljósmyndir, sem teknar voru í gær, sýna engin sérstök ummerki að auk rennsli jarðhitavatns komi úr Gengissigi og sýna þær að töluvert vatn kemur undan Dyngjujökli. Vísbendingar eru um að leiðni hafi heldur farið minnkandi í Jökulsá. Jarðskjálftavirkni hefur ekki breyst samhliða útrennsli jarðhitavatnsins. Frekari mælingar til að finna uppruna jarðhitavatnsins verða gerðar við fyrsta tækifæri, segir í tilkynningunni.