Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Uppskera með betra móti hjá grænmetisbændum

31.08.2019 - 19:30
Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Uppskerutími grænmetisbænda stendur nú sem hæst. Bændur, handverksfólk og matvælaframleiðendur í Hrunamannahreppi fögnuðu uppskeru sumarsins í dag. Matarkistan Hrunamannahreppur er yfirskrift uppskeruhátíðarinnar. Meðal viðburða í dag var árlegur bændamarkaður í félagsheimilinu á Flúðum. Bændur eru ánægðir með uppskeru sumarsins.

„Hún er bara búin að vera fín, bara mjög fín. Það hefur þurft að vökva grænmetið, en það hefur bara verið fínt. Betra en seinustu ár? Já, það var hlýrra og það munaði öllu. Þær eru nú skrýtnar á litinn þessar gulrætur hjá þér. Já, þetta eru regnbogagulrætur. Við höfum verið að prufa þetta í svolítinn tíma,“ segir Óskar Rafn Emilsson, grænmetisbóndi á Grafarbakka.

Bakkelsi og heimagerður brjóstsykur

„Ég er með heimagert bakkelsi og heimagerðan brjóstsykur. Og hefur gengið bara mjög vel. Svo sé ég að þið eruð með brodd, hann hlýtur að vera vinsæll hjá þeim sem eru duglegir í ræktinni. Já hann rýkur út í það. Hann er gríðarlega næringarmikill svo hann er vinsæll,“ segir  Ragnheiður Hallgrímsdóttir, ein af forsprökkum Samansafnsins á Sólheimum, Hrunamannahreppi.

Einn af sölubásunum í dag var frá vinnustofunni Kjallaranum á Flúðum þar sem starfsmenn endurvinna meðal annars tuskur og grænmetispoka frá bændur og búa til fjölnota poka og klúta. Þá útbúa þeir einnig listmuni.

„Þetta er ég að saga á vinnustofunni. Ég er að saga hesta og svani og fugla,“ segir Atli Sigmundsson, starfsmaður.

Vöfflur í hundraðavís

Kvenfélag Hrunamanna lét ekki sitt eftir liggja og bakaði vöfflur og kleinur fyrir gesti og gangandi. Edda Vilborg Guðmundsdóttir, stóð vaktina við vöfflujárnið ásamt fleirum í dag.

Geturðu bakað á öllum þessum járnum í einu? Já, ég var einmitt að uppfærast. Ég hef aldrei gert þetta fyrr. Svo þetta er ný upplifun fyrir mig. Ég hef alltaf dáðst að því hvað þær geta bakað á mörgum pönnum og járnum í einu. En nú er ég bara kominn í hópinn. Ertu ekki búin að brenna neina? Nei nei, ef eitthvað fer úrskeiðiss þá eru þær bara étnar af okkur hérna á bakvið,“ sagði Edda Vilborg létt í bragði.

Unga fólkið liðlegt á básunum

Unga kynslóðin lagði sitt af mörkum á markaðnum og  Andri og Ingunn Lilja hjálpuðu til við að selja grænmeti og gefa fólki að smakka. Þá gekk vel hjá Katrínu kötlu Guðmannsdóttur, poppsölukonu sem fréttastofa tók tali.

Hvað ert þú að selja? Popp Og er popp gert hérna í sveitinni? Já stundum. Og hvað fer mikið í hvern poka? Bara svona hálfur poki. Bara svona sirka? Já!“ sagði Katrín Katla

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV