Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Uppselt á átta tónleika á einni helgi

Mynd: Gunnar Hansson / Gunnar Hansson

Uppselt á átta tónleika á einni helgi

14.12.2019 - 10:31

Höfundar

Friðrik Dór er sonur tveggja Hafnfirðinga og ólst upp í Hafnarfirði en segist samt ekki geta kallað sig Gaflara því hann hafi ekki fæðst í sveitarfélaginu. „Þetta er mjög ströng regla, það þyrfti eiginlega að breyta henni,“ segir Friðrik Dór sem var föstudagsgestur Mannlega þáttarins.

Hann ól manninn í Setberginu þegar enn var verið að byggja hverfið. „Sleðabrekkurnar eru ekki jafn góðar og þær voru, nú eru komin einhver hús og göngustígar fyrir.“ Friðrik Dór, Jón Jónsson, og öll fjölskyldan eru ljónharðir FH-ingar og Friðrik æfði fótbolta fram yfir tvítugt. „Ég var mikið í hægri bakverðinum, sem er dálítið svona afgangsstaða,“ segir hann og vill lítið gera í afrekum sínum á því sviði. Hann var í tónlistarskóla og lærði fyrst á píanó en það átti ekki við hann og hann skipti yfir í trommur og kláraði sjötta stig. „Svo þegar ég var 14 ára kenndi Jón bróðir mér nokkur grip á gítar og þá fer ég að semja lög.“

Friðrik Dór spilaði mikið með bróðir sínum Jóni Jónssyni úti í bílskúr á unglingsaldri þar sem hann lék á trommur og Jón á gítar. „Við spiluðum mikið rokk og ról. Nágrannarnir voru þolinmóðir.“ Þá var hann í hljómsveitinni Fendrix sem komst í úrslit Músíktilrauna árið 2003 og spilaði á trommur en hann söng í fyrsta skiptið í áheyrnarprufu fyrir söngleikinn í Versló þar sem tónlistarstjórinn var píanóleikarinn Jón Ólafsson. Friðrik varð fljótt vinsæll eftir að hann kom fram og hann þakkar að hluta til góðri tímasetningu. „Þarna var seinni bylgja sveitaballabanda við það að klára, um 2009, og ég kom inn með eitthvað aðeins öðruvísi sem að ungt fólk tengdi við, músík í námunda við ameríska R&B og hip hop tónlist, það var eitthvað nýtt.“

En nú hefur Friðrik fært út í kvíarnar og var að gefa út bókina Léttir réttir Frikka, matreiðslubók fyrir byrjendur. Þar leggur hann upp með rétti sem er auðvelt að búa til og eru með fáum hráefnum. Í bókinni er allt frá indverskum kjúklingarétti yfir í grillaðar pulsur og brauðstangir úr Ikea-deigi. „Fólk ætti að geta vaxið með bókinni, byrjaði í einhverju með algjörlega lágmarksfyrirhöfn og svo farið í aðeins hærra flækjustig smátt og smátt.“

Um helgina leikur Friðrik Dór með bróður sínum Jóni Jónssyni á hvorki meira né minna en átta tónleikum frá föstudegi til sunnudags í Bæjarbíói í Hafnarfirði. „Það er uppselt á alla, ekki til einn einasti miði, sem er náttúrulega mjög gaman,“ segir Friðrik stoltur að lokum.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Sykur, Aron Can og Friðrik Dór með nýtt

Popptónlist

Alla leið: Tékkneskur Friðrik Dór með trompet

Tónlist

„Hringd'í mig“ með Friðriki Dór mest spilað

Popptónlist

Friðrik Dór tekur „Skál fyrir þér“