Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Uppreisnarmenn snúa vörn í sókn með aðstoð Tyrkja

03.03.2020 - 09:34
epa08230654 Fighters of the Turkish-backed National Syrian Army advance towards al-Nayrab village from Qminas village, some 6 km east of Idlib, Syria, 20 February 2020.  EPA-EFE/YAHYA NEMAH
Bryndreki uppreisnarmanna í Idlib. Mynd: EPA-EFE - EPA
Uppreisnarmenn í Idlib-héraði í Sýrlandi hafa undanfarna fimm daga styrkt þar stöðu sína með hjálp Tyrkja. Tyrkir hafa notað orrustuþotur og stórskotalið til hjálpar uppreisnarmönnum, en einnig sent dróna til árása á sýrlenska stjórnarherinn í Idlib og víðar.

Tyrkir hafa áður notað dróna til árása í Sýrlandi, en þá gegn hersveitum Kúrda. Að sögn fréttastofunnar Al Jazeera eru árásirnar núna miklu umfangsmeiri. Drónar hafi ekki eingöngu ráðist á bílalestir og bækistöðvar sýrlenska stjórnarhersins heltur einnig gert árásir langt utan Idlib þar á meðal á flugvelli nærri borgunum Aleppo og Hama.

Tyrkneskir fjölmiðlar höfðu eftir Hulusi Akar, varnarmálaráðherra Tyrklands, í gær, að tyrkneskar sveitir hefðu skotið niður tvær sýrlenskar orrustuþotur og tvo dróna, enn fremur eyðilagt 135 skriðdreka sýrlenska stjórnarhersins og fimm loftvarnarskotpalla. Þá hafi 2.500 sýrlenskir hermenn og bandamenn verið drepnir, særðir eða teknir höndum.