Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Uppnám í ríkisstjórninni sagt hliðarveruleiki og rugl

27.11.2019 - 17:18
Mynd með færslu
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Mynd: RÚV
Fjárlögin sem samþykkt voru á Alþingi í dag voru ýmist sögð frábær eða ömurleg. Þessi andstæðu sjónarmið stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka komu hvað skýrast fram þegar Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist vera „kátur maður í dag“ en Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sakaði meirihlutann um „undirlægjuhátt.“ Formaður Viðreisnar sagði uppnám hafa verið hjá ríkisstjórnarflokkunum í gærkvöld, eitthvað sem formaður Framsóknarflokks kannaðist ekki við.

Segja má að Samherjaskjölin hafi verið yfir og allt um kring þegar atkvæði voru greidd um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í dag.  Þingmenn  Samfylkingarinnar gengu hvað harðast fram í gagnrýni sinni á stjórnarflokkanna en flokkurinn lagði fram breytingartillögu um aukið fjármagn til skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra og héraðssaksóknara, þau þrjú embætti sem helst munu rannsaka Samherjamálið.

Sakaði meirihluta um undirlægjuhátt

Helga Vala Helgadóttir sagði það eiga eftir að líta illa út á við þegar ríkisstjórnin felldi þessar tillögur og ætlaði sér að skammta þessum stofnunum fjármagn eftir eigin geðþótta með sjávarútvegsráðherra innanborðs. 

Oddný G. Harðardóttir sagði ríkisstjórnina vera að draga tennurnar úr þeim rannsóknum sem lægju fyrir og Logi Már Einarsson beindi gagnrýni sinni að forsætisráðherra. Hún hefði talað fyrir auknu samráði en ætlaði nú að láta dómsmálaráðherra og forsætisráðherra ákveða hvort, hvenær og hversu mikið ætti að láta í rannsóknir á Samherjaskjölunum. „Undirlægjuháttur,“ sagði Logi um þá sem ekki ætluðu að greiða atkvæði með tillögunum.

Stjórnarandstaðan taldi jafnframt að sú leið sem ríkisstjórnin ætlar að fara til að tryggja þessum stofnunum aukið fjármagn með því að nýta sér varasjóði væri brot á lögum um opinber fjármál. Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði það alveg skýrt hvað mætti og hvað mætti ekki. Ríkisstjórnin væri í sandkassaleik og brjóta lög fyrir allra augum. 

Hliðarveruleiki og ruglræða

Stjórnarliðar brugðust mjög hart við þessari gagnrýni. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, kallaði reyndar fjárlögin frábær og sakaði Samfylkinguna um tæknilega útúrsnúninga þar sem hún skildi ekki lög um opinber fjármál. 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði engan þurfa velkjast í vafa um að þessum stofnunum yrði tryggt nægt fjármagn þannig að þær gætu sinnt eftirlitshlutverki sínu með fullnægjandi hætti.  Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, sagðist ekki geta setið undir þeirri gagnrýni að verið væri að veikja eftirlitsstofnanir. Það yrði staðið við þau fyrirheit að þessar stofnanir fengju nægt fjármagn til að bregðast við hugsanlegu álagi en ekki einstökum málum.  „Að halda því fram að einhver sé að fara gegn lögum og brjóta þau, það er alvarlegt,“ sagði Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar.

Umræðan um þetta tiltekna mál náði hámarki þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar,  sagði alla hafa vitað af því að það hefði verið uppnám hjá ríkisstjórnarflokkunum þegar forsætisráðherra hefði reynt að koma til móts við tillögur Samfylkingarinnar um aukið fjármagn til þessara stofnana. En það þyrfti að hafa aga á mannskapnum og því yrði ekki tekið á þeim stóru verkefnum sem væru framundan því ríkisstjórnin væri undir.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði Þorgerði hafa ímyndað sér þessa atburðarás sem ætti sér ekki nokkra stoð í raunveruleikanum. „Þessi ræða var rugl.“ Sigurður Ingi sagði að ef það hefði verið panik hjá ríkisstjórninni hefði alveg gleymst að láta hann vita af því. „Sú þvæla sem hér var borin fram er í anda tilbúinna frétta.“

Frábær eða ömurleg fjárlög?

En það var fleira sem brann á þingmönnum en Samherjaskjölin og rannsóknin á þeim.  

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði ríkisstjórnina halda í mannvonskukerfi almannatrygginga og ætlaði sér að skerða kinnroðalaust þá sem veikastir væru. Fátæku fólki væri neitað um réttlæti.  Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði útgjöld ríkissjóðs hafa aukist um helming á síðastliðnum sex árum. Almenningur hefði ekki fundið fyrir því en í staðinn væri gölluðu kerfi áfram leyft að vaxa. 

Í sama streng tók Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar. Aldrei hefðu útgjöld ríkissjóðs verið aukin jafn mikið með jafn litlum árangri. Biðlistar væru enn jafn langir og ekki væri tekið á vanda aldraðra og öryrkja. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði fjárlagafrumvarpið ömurlegt þar sem það byggði á giski og geðþóttaákvörðunum.

Stjórnarþingmenn voru ögn kátari, allavega Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem sagði þetta ábyrg fjárlög og tímamót í hagstjórn. „Ég er kátur í dag.“  Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, sagði fjárlagafrumvarpið dæmi um skynsama hagstjórn og Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, sagði fjárlögin góð. Þau sýndu að ríkisstjórnin færi strax í málin og árangurinn sæist strax.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV