Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Upplýstu þjóðaröryggisráð um stöðu mála

03.03.2020 - 10:23
Mynd: Beggi / RÚV
Það kemur landlækni á óvart hversu mikið staðfestum COVID-19 tilfellum hefur fjölgað undanfarinn sólarhring. Það kann þó að vera vegna þess að íslensk heilbrigðisyfirvöld gangi lengra en aðrar þjóðir í sýnatöku og að rekja ferðir þeirra sem hafa smitast.

Þjóðaröryggisráð kom saman til fundar í ráðherrabústaðnum í morgun. Landlæknir, vararíkislögreglustjóri og deildarstjóri almannavarna upplýstu ráðið um stöðu mála og viðbrögð heilbrigðiskerfisins og almannavarna vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar.

Alma Möller, landlæknir, sagði eftir fundinn að nú sé unnið að því að efla upplýsingagjöf til almennings, sérstaklega til viðkvæmra hópa. Sex einstaklingar greindust með veiruna í gær og er fjöldi smitaðra alls níu.

Alma viðurkennir að þessi hraða fjölgun í gær hafi komið henni á óvart. „Ég held að það sé vegna þess að við erum að taka svo mikið af sýnum, við erum lítið land og upplýsingar komast áfram. Við erum að ganga heldur lengra en margar aðrar þjóðir, bæði að taka sýni og rekja ferðir þeirra sem haf smitast, og vonandi er þetta merki um það.“