Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Uppbyggingar og ánægjustundir í Borgarleikhúsi

Mynd: RÚV / RÚV

Uppbyggingar og ánægjustundir í Borgarleikhúsi

28.11.2019 - 14:41

Höfundar

María Kristjánsdóttir fjallar um bækur á sviði, sýningarnar Um tímann og vatnið og Skjáskot í Borgarleikhúsinu sem byggjast á bókum eftir Andra Snæ Magnason og Berg Ebba Benediktsson. „Þetta eru ólíkir menn þó báðir séu ættaðir úr Norður Þingeyjarsýslu, liggi mikið á hjarta og báðir gefi út bækur á þessu ári. Og ólíkt er hvernig þeir takast á við viðfangsefnið,“ segir María.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Þar sem nú eru bílastæði alþingismanna vorra á horni Templarasunds og Vonarstrætis stóð lengi einlyft timburhús: Hús Góðtemplarafélags Reykjavíkur, kallað Gúttó. Það var vígt árið 1887 og þremur árum síðar var þar komið fyrir kassasviði þar sem leiksýningar Reykvíkinga fóru fram eða þar til Leikfélag Reykjavíkur tók til starfa í Iðnó árið 1887. Auk félagsstarfs bindindismanna áttu þar ýmis félög skjól, bæjarstjórnin hélt þar fundi og þar voru fluttir opinberir fyrirlestrar um landsins gagn og nauðsynjar. Þangað sótti verkakonan Elka Björnsdóttir „dýrmætar uppbyggingar og ánægjustundir“ í upphafi tuttugustu aldar. Þar hélt Bríet Bjarnhéðinsdóttir fyrst allra kvenna opinberan fyrirlestur.

Hvort samvist Leikfélags Reykjavíkur og hins opinbera fyrirlestrahalds í Gúttó og seinna Iðnó átti þátt í því að Borgarleikhúsið tók upp þann gamla góða sið að lyfta fram nú í vetur fyrirlestrum veit ég ekki. En þetta er góð hugmynd því að baðstofugenið er sterkt í okkur, þörfin fyrir að hlusta, skilja og gjáin milli fræðasamfélagsins í HÍ of djúp til þess að almenningur streymi á fyrirlestrana þar. Leikhúsið heillar meir.

Það eru Andri Snær og Bergur Ebbi sem ríða þar fyrstir á vaðið. Þetta eru ólíkir menn þó báðir séu ættaðir úr Norður-Þingeyjarsýslu, liggi mikið á hjarta og báðir gefi út bækur á þessu ári. Og ólíkt er hvernig þeir takast á við viðfangsefnið.

Andri Snær stígur fram á Stóra sviðinu með fyrirlesturinn „Um tímann og vatnið“. Hann er hinn kurteisi þægilegi fræði-listamaður með glettni í auga sem nýtir sér skjá þar sem hann varpar upp línuritum, glærum, ljósmyndum, kvikmyndum til að víkka, dýpka frásögnina og lyfta henni. Og hefur auk þess sér til fulltingis tónlistarmanninn Högna Egilsson og kór Kárnesskóla. Allt eins mætti kalla Högna mótleikara Andra Snæs en með víólu, píanói og tölvutækni styður hann frásögnina og bregst við henni, undirstrikar hápunkta.

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett
Andri Snær gaf út Um tímann og vatnið fyrir skemmstu.

Málefnið sem liggur Andra Snæ á hjarta er svo stórt í hans huga að hann segir það stærra en tungumálið og öll okkar fyrri reynsla. Þetta stóra er hvernig við mannfólkið erum að fara með jörðina: hafið, landið, samfélögin. Fyrirlesturinn Um tímann og vatnið fjalli um „stóru breytingarnar sem vísindamenn sjá fyrir sér á næstu 100 árum hvað varðar eðli alls vatns á jörðinni. Þegar jöklar bráðna, hafsborðið rís, höfin súrna og veðrakerfin fara úr jafnvægi.“ Sjálfur er hann í miðpunkti á ferðalaginu um tímann. Og í þeim leiðangri kemur hann víða við, tengir fortíð við nútíð, framtíð og allur heimurinn er undir. Ísmeygileg er nánast aðferðin sem hann notar til að vekja áheyrandann til meðvitundar um þann vanda sem við stöndum frammi fyrir. Ljósmyndir afa hans frá Vatnajökli, Himalaja-fjöllin, heilagar kýr, sjö hundruð ára gamalt íslenskt handrit, krókódílar, olíufoss og Dalai Lama rata öll inn í ferðalag hans og margt kemur þar á óvart. Hann setur ekki fram neinar lausnir, kurteis eins og hann er, en skilur okkur eftir með kærleik til alls sem lifir, hefur lifað og mun vonandi lifa ef við grípum til aðgerða sem duga.

Á nýja sviðinu er hins vegar Bergur Ebbi í allt öðrum gír. Hann mætir þar bara einn og sjálfur, að baki hans í byrjun ljósmynd af ketti, þær verða fjórar myndirnar og ein þeirra blikkar okkur meira að segja. Annars ekkert á sviðinu nema statíf fyrir hljóðnema. Eitt það fyrsta sem Bergur Ebbi gerir er að hoppa niður af sviðinu og ávarpa okkur áheyrendur. Spyrja okkur spurningar sem ekki verður svarað en kveikir samband sem helst til loka. Því Bergur Ebbi er, eins og Málfríður Einarsdóttir myndi orða það: „veltalandi, mjögtalandi, hraðtalandi, skýrtalandi, djúpthugsandi, hraðhugsandi, velhugsandi, næmthugsandi.“ Reynsla hans úr uppistandi kemur hér sér vel, því hann litar fossandi talandann, með brögðum leiklistar: þögnum sem undirbúning í næsta áfanga og stundum, bara stundum, með snöggum hvörfum í sjálfum talandanum, uppbrotum sem koma á óvart og halda áhorfanda við efnið.

Mynd með færslu
 Mynd: Forlagið - RÚV
Skjáskot eftir Berg Ebba kom út í haust.

Skjáskot kallar hann fyrirlesturinn eins og bókina sem hann byggist á og kynnt er sem leiðsögn um nútímann. Og fyrirlesturinn var það svo sannarlega fyrir mig. Ég hef notað tölvur, gemsa, snjallsíma frá því þessi tæki komu fyrst á markaðinn. Þau hafa létt mér lífið. Líka valdið mér heilabrotum. Stundum ótta. Aldrei samt nógu miklum til að ég fengi á þeim verulegan áhuga. En þarna í rými þar sem snjallsímar voru bannaðir. Maður talaði við menn. Þá fylltist ég allt í einu áhuga eða eins og Bergur Ebbi myndi kannski orða það upplýsingar komust til skila svo merking varð til. Ég ætla ekki að endursegja erindið. Bara spyrja ykkur: Skortir ykkur samhengi andspænis þeirri byltingu sem er í gangi það er að segja fjórðu iðnbyltingunni, söfnuninni á gögnum og gagnaúrvinnslu? Óttist þið stóraukna notkun gervigreindar sem leysa mun í miklum mæli mannlega greind af hólmi og sinna ýmsu sem áður var aðeins á færi manneskjunnar? Vitiði hvað eigandi risaeðluskemmtigarðsins í kvikmyndinni Jurassic Park og notandi snjallsíma kunna að eiga sameiginlegt? Vitiði þið hver Claude Shannon er? Og síðast en ekki síst hafið þið hugleitt þetta með pot og strokur fingra okkar yfir gler snjallsímans? Um allar þessar spurningar og miklu fleiri er fjallað í erindinu þó þeim sé kannski ekki endilega svarað. Bergur Ebbi er húmanisti með húmor. Það er því rík ástæða fyrir flesta að haska sér í Borgarleikhúsið. Næsti fyrirlestur Andra Snæs er í kvöld. Það er uppselt. Bergs Ebba er 3. desember. Það er uppselt. En þeir koma báðir aftur í janúar.

Táningurinn sem fylgdi mér á báða fyrirlestrana og finnst nú um stundir orð vera dýr lýsti því samt yfir að fyrirlestur Andra Snæs hefði verið fræðandi og tónlistin hans Högna falleg. Um fyrirlestur Bergs Ebba sagði hann hins vegar bara: Þetta var gaman!

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Einvígi milli manns og tækni

Bókmenntir

Hið röklega tengt við tilfinningastrengi

Bókmenntir

Allsherjar breyting á öllu framundan

Menningarefni

Ekki alveg heimsósómamegin við línuna