María Kristjánsdóttir skrifar:
Þar sem nú eru bílastæði alþingismanna vorra á horni Templarasunds og Vonarstrætis stóð lengi einlyft timburhús: Hús Góðtemplarafélags Reykjavíkur, kallað Gúttó. Það var vígt árið 1887 og þremur árum síðar var þar komið fyrir kassasviði þar sem leiksýningar Reykvíkinga fóru fram eða þar til Leikfélag Reykjavíkur tók til starfa í Iðnó árið 1887. Auk félagsstarfs bindindismanna áttu þar ýmis félög skjól, bæjarstjórnin hélt þar fundi og þar voru fluttir opinberir fyrirlestrar um landsins gagn og nauðsynjar. Þangað sótti verkakonan Elka Björnsdóttir „dýrmætar uppbyggingar og ánægjustundir“ í upphafi tuttugustu aldar. Þar hélt Bríet Bjarnhéðinsdóttir fyrst allra kvenna opinberan fyrirlestur.
Hvort samvist Leikfélags Reykjavíkur og hins opinbera fyrirlestrahalds í Gúttó og seinna Iðnó átti þátt í því að Borgarleikhúsið tók upp þann gamla góða sið að lyfta fram nú í vetur fyrirlestrum veit ég ekki. En þetta er góð hugmynd því að baðstofugenið er sterkt í okkur, þörfin fyrir að hlusta, skilja og gjáin milli fræðasamfélagsins í HÍ of djúp til þess að almenningur streymi á fyrirlestrana þar. Leikhúsið heillar meir.
Það eru Andri Snær og Bergur Ebbi sem ríða þar fyrstir á vaðið. Þetta eru ólíkir menn þó báðir séu ættaðir úr Norður-Þingeyjarsýslu, liggi mikið á hjarta og báðir gefi út bækur á þessu ári. Og ólíkt er hvernig þeir takast á við viðfangsefnið.
Andri Snær stígur fram á Stóra sviðinu með fyrirlesturinn „Um tímann og vatnið“. Hann er hinn kurteisi þægilegi fræði-listamaður með glettni í auga sem nýtir sér skjá þar sem hann varpar upp línuritum, glærum, ljósmyndum, kvikmyndum til að víkka, dýpka frásögnina og lyfta henni. Og hefur auk þess sér til fulltingis tónlistarmanninn Högna Egilsson og kór Kárnesskóla. Allt eins mætti kalla Högna mótleikara Andra Snæs en með víólu, píanói og tölvutækni styður hann frásögnina og bregst við henni, undirstrikar hápunkta.