Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Uppboð á kvóta í Færeyjum

19.07.2016 - 15:43
Tinganes í Þórshöfn í Færeyjum
Þórshöfn í Færeyjum. Mynd: Danmarks Radio
Færeyingar hafa nú hafið uppboð fiskveiðikvóta sem veiddir verða í ár í lögsögu Færeyja. Tilgangurinn er að samfélagið fái sem mestar tekjur af fiskveiðiauðlindinni.

 

Í stað þess að stjórnmálamenn ákveði hve mikið útgerðirnar eigi að borga fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni þá er kvótinn nú boðinn upp. Með þessu fær sá veiðiréttinn sem býður hæst og meiri peningar koma í landskassann en ella.

Í síðustu viku var boðinn upp 3.500 tonna makrílkvóti í Færeyjum og fengust fyrir hann 3,52 krónur danskar á kíló eða alls 12.362.500 krónur danskar. Þá fékkst fyrir síld 3,56 krónur danskar hvert kíló og besta meðalverð á kvóta fyrir botnfisk í Barentshafi, sem er aðallega þorskur, var 3,40 krónur danskar hvert kíló.

Hið nýja kerfi á að gera kvótaskiptinguna hreyfanlegri en verið hefur og að hægt sé að leigja mismunandi stóra veiðikvóta, allt eftir þörfum einstakra útgerða.

Högni Höydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja, og aðrir ráðamenn í Færeyjum vonast til að þessi tilraun með uppboðskerfi skapi grundvöll að nýju fiskveiðistjórnunarkerfi. Og að uppboðsformið leiði til að útgerðirnar skapi sem mest verðmæti úr þeim fiski sem þær hafa keypt réttinn til að veiða.

Málið vekur athygli víða, meðal annars á Grænlandi þar sem bent er á að væri 85 þúsund tonna makrílkvóta í grænlenskri lögsögu ekki úthlutað af stjórnmálamönnum en hann heldur settur á uppboð fengist mikið fé í landskassann, sem yrði veruleg búbót fyrir alla íbúa Grænlands. 

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV