Unnur: „Hræddir karlar við sterkar konur“

30.11.2018 - 09:43
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins segir að yfirlýsing sem Miðflokkurinn sendi frá sér í gær hafi verið veik. „Orðfærið dæmir sig sjálft og þetta er subbulegt í alla staði. Ég skil ekki hvernig þetta fólk með sitt umboð ætlar að starfa áfram. Ég held að þeirra kjósendur hafi verið sviknir,“ segir Silja um sexmenningana sem töluðu illa um samstarfsmenn sína á bar við Alþingishúsið í síðustu viku. Unnur Brá Konráðsdóttir lýsir þeim sem hræddum körlum við sterkar konur.

Þær voru gestir Morgunútvarpsins ásamt Oddnýju Harðardóttur, þingflokksformanni Samfylkingarinnar. Um þær er talað á niðrandi hátt í upptökunum umdeildu þar sem sex þingmenn Miðflokks og Flokks fólksins tala illa um samstarfsfólk sitt á þingi, þá sérstaklega konur. 

Unnur Brá, fyrrverandi forseti Alþingis, segir að þingmennirnir væru ekki að tala svona nema konurnar væru þeim ógn í pólitík. „Þetta lítur þannig út fyrir mér að þetta eru hræddir karlar við sterkar konur. Ég er fullviss um það að það væri ekki verið að tala um mann á þessum bar nema af því maður er sterkur og ógn við þeirra tilveru í pólitík. Ég er ekki hætt í pólitík  og mun koma aftur. En viðurlögin eru ekki þannig að það er ekki hægt að víkja fólki úr starfi. Það er enginn sem getur tekið slíka ákvörðun nema þeir sem sitja á þingi. Þeir eru með umboð þjóðarinnar til að sitja þar,“ segir Unnur.

Oddný stendur við það sem hún sagði í gær að þingmönnunum væri ekki sætt á Alþingi. „Mér finnst mjög athyglisvert að þarna sitja sex manns og eina manneskjan sem hefur sagst vera að íhuga stöðu sína það er kvenmaðurinn í hópnum. Sem er minnst haft eftir í þesum upptökum. Mér finnst það nú líka segja sína sögu,“ segir Oddný.

Oddný sagði jafnframt að Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins og einn sexmenninganna hefði hringt í sig í gærmorgun og beðist afsökunar. Silja hefur þó ekki fengið formlega afsökunarbeiðni. „Ég átta mig ekki á hvernig þingstörfin eiga að virka eftir þetta. Ég fór á Bessastaði í gærkvöldi þar var Anna Kolbrún ásamt Sigmundi Davíð. Þau nálguðust mig ekkert eða gerðu tilraun til þess. það hefur enginn hringt í mig eða sent mér skilaboð. Mér finnst þessi yfirlýsing sem kom frá þeim í gær vera yfirklór til að bjarga því sem bjargað verður,“ segir Silja. Hin árlega þingmannaveisla var haldin á Bessastöðum í gær.