Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Unnur Brá með barn á brjósti í ræðustól

12.10.2016 - 13:28
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar-og menntamálanefndar, mætti með mánaðargamalt barn í ræðustól Alþingis og gaf brjóst þegar hún kvaddi sér hljóðs í atkvæðagreiðslu um útlendingalögin. Fréttastofu er ekki kunnugt um að þetta hafi áður gerst - að hvítvoðungur hafi verið með í för þegar þingmaður talar úr ræðustóli.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu bauðst Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, til að taka stúlkuna á meðan Unnur Brá gerði grein fyrir atkvæði sínu. Stúlkan litla tók slíkt ekki í mál þegar röðin var komin að Unni og því var ekkert annað í stöðunni en að fara með dótturina upp í ræðustól.

Unnur Brá eignaðist stúlku 1. september síðastliðinn með kærasta sínum Sigurði Inga Sigurpálssyni. Þetta er þriðja barn þingmannsins en hún á fyrir dreng sem fæddur er 2004 og stúlku fædda 2008. Sú nýfædda hefur reyndar verið á faraldsfæti þessa vikuna því hún mætti með móður sinni á bæði Arctic Circle og fund Háskóla Íslands um leiðtogafundinn.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV