Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Unnsteinn stefnir Húsasmiðjunni fyrir höfundaréttarbrot

19.11.2019 - 19:26
Mynd: Ingvar Haukur Guðmunsson / Egge / RÚV
Unnsteinn Manuel Stefánsson, tónlistarmaður og forsprakki hljómsveitarinnar Retro Stefson, hefur stefnt Húsasmiðjunni fyrir dóm. Hann telur að fyrirtækið hafi brotið höfundarrétt með notkun lags í auglýsingaherferð. Húsasmiðjan neitar sök og segir að málinu sé beint að röngum aðila.

Hljómsveitin Retro Stefson var um langt árabil ein vinsælasta hljómsveit landsins, en hún hætti störfum árið 2016. Í september í fyrra hafði auglýsingastofa á vegum Húsasmiðjunnar samband við umboðsmann sveitarinnar, og óskaði eftir því að fá að nota hluta úr laginu Glow í auglýsingaherferð fyrirtækisins.  

Ekki náðist samkomulag og því veitti Retro Stefson ekki heimild fyrir því að lagið yrði notað í auglýsingaherferð Húsasmiðjunnar. Innan við mánuði síðar hófst herferðin.

Í herferðinni var notuð tónlist sem Unnsteinn Manuel Stefánsson, forsprakki Retro Stefson og höfundur lagsins Glow, telur að sé brot á höfundarrétti sínum og óheimil notkun á hugverki. 

Rangur aðili

Eftir að Magnús Hrafn Magnússon, lögmaður Unnsteins, sendi Húsasmiðjunni bréf var birting auglýsinganna stöðvuð. Samningaviðræður í kjölfarið báru ekki árangur og hefur Unnsteinn nú höfðað mál til greiðslu bóta. Unnsteinn vill ekki tjá sig um málið á meðan það er til meðferðar hjá dómstólum.

Smári Hilmarsson, lögmaður Húsasmiðjunnar, sagði í samtali við fréttastofu í dag að ekki sé búið að leggja fram sannanir fyrir því að lag Unnsteins hafi verið notað, og að forsendur kröfunnar séu mjög hæpnar. Húsasmiðjan hafi fengið tónlistarmenn til að greina líkindin, sem þeir hafi viljað meina að séu ekki til staðar. Þá hafi Húsasmiðjan ekki komið að gerð auglýsinganna, heldur auglýsingastofa, og því sé verið að stefna röngum aðila.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV