Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Unnið kjöt úr útlendu hráefni merkt íslenskt

08.07.2016 - 18:59
Mynd: RÚV / RÚV
Unnar kjötvörur eins og pylsur og beikon geta verið úr erlendu kjöti, þó þær séu merktar sem íslenskar. Lögum samkvæmt má merkja kjöt íslenskt ef það er verkað hérlendis.

Íslenskir neytendur eiga ekki lagalegan rétt á upplýsingum um frá hvaða landi kjúklingur eða svínakjöt, sem flutt er inn til landsins, kemur. Þetta á bæði við um frosið kjöt og þiðið. Pylsur eru merktar sem íslensk vara ef þær eru framleiddar hér, þó að innihaldið komi til dæmis frá Spáni. Sama gildir um allar unnar kjötvörur, svo sem kjötfars og beikon.

Innflutt kjúklingakjöt kemur helst frá Danmörku. Það er þó ekki þar með sagt að kjúklingurinn sé danskur. Stór hluti kjúklingakjöts í Evrópu kemur til dæmis frá Asíu, án þess að það komi endilega fram á umbúðunum. „Mér finnst það ekki nógu gott,“ segir Katrín Gerður Júlíusdóttir, sem við hittum í stórmarkaði á höfuðborgarsvæðinu í dag. „Ég myndi ekki þora að kaupa það. Ég hugsa að ég myndi enda í íslensku. Mér finnst ekki sama hvaðan þetta kemur og hvað þetta étur og hvað er verið að gefa þessu og svona. Maður þekkir ekkert þessar reglur sem eru erlendis.“

Langflestir þeirra sem fréttastofa ræddi við í dag voru sammála um að mikilvægt sé að merkja kjötið frá hvaða landi það er. Slík reglugerð hefur tekið gildi í Evrópusambandslöndunum en ekki á EES-svæðinu. „Mér finnst það bara skipta öllu máli. Af því að ég vil helst velja íslenskt ef ég get. Maður á að vita hvaðan varan kemur sem maður er að kaupa,“ segir Linda Halldórsdóttir, sem einnig var í búðinni.