Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ungt fólk vill umhverfisvænar leiðisskreytingar

10.12.2019 - 10:10
Mynd með færslu
 Mynd: Úlla Árdal - RÚV
Aukin eftirspurn er eftir leiðisskreytingum úr náttúrulegum efnum. Starfsmaður Sólskóga í Kjarnaskógi segir greinilega breytingu hjá yngra fólki, eldi kynslóðin kjósi enn slaufur og skraut. Framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar segist taka breytingunni fagnandi.

Nú þegar aðventan er gengin í garð eru margir farnir að huga að krönsum og öðrum skreytingum til að setja á leiði látinna ástvina. Í Sólskógum í Kjarnaskógi hefur orðið töluverð breyting því aukin eftirspurn er eftir leiðisskreytingum úr náttúrulegum efnum.  

Nýtir það sem til fellur

Sigurður Arnarson, starfsmaður í Sólskógum, var önnum kafinn við að útbúa skreytingu þegar fréttastofu bar að garði. Skreytingin er aðeins öðruvísi en landinn á að venjast. Á greinarnar setur hann meðal annars trjábörk, hvönn og strá. Hann þarf því ekki að fara langt eftir efnivið. Mikið af honum er eitthvað sem fellur til í skógræktinni og hefur ekki verið nýtt hingað til.

Mynd með færslu

 

Eldra fólk vanafast

Sigurður segist hafa tekið eftir breytingunni síðustu jól, þá hafi meira verið spurt eftir skreytingum án skrauts; „Sérstaklega hjá yngra fólki þá hefur verið tilhneiging til þess að kaupa minna af plastdóti, plastslaufum og plastkúlum eða einhverju svona einnota dóti sem er svo hent“. Eldra fólk kjósi þó enn slaufur og skraut en hann er þess fullviss að plastskraut á leiðum heyri sögunni til innan nokkurra ára.

Mikið hreinsunarstarf eftir hátíðirnar

Leiðisskreytingarnar enda flestar í kirkjugörðum og Smári Sigurðsson framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar tekur þessum breytingum fagnandi. Mikil vinna sé fyrir starfsmenn að hreinsa kirkjugarðana í upphafi nýs árs. Fjarlægja þurfi allar greinar, klippa af þeim slaufur og skraut og flokka. „Við fögnum því nú bara ef fólk fer að finna náttúruvænni lausnir í að skreyta þessar greinar þannig að þetta geti allt endað í lífrænu,“ segir Smári.

Vilja lifandi tré í pottum

Plastlausar skreytingar eru þó ekki eina breytingin sem starfsfólk Sólskóga finnur fyrir því vaxandi eftirspurn er eftir lifandi trjám í pottum. Sigurður segir þau skreytt og höfð úti á svölum eða á pallinum yfir hátíðirnar, svo sé hægt að gróðursetja þau í garðinum eða sumarbústaðarlandinu í vor. Hann segir trén ekki þola langan tíma innivið en hægt sé að setja þau inn í stutta stund vilji fólk það.