Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ungt fólk krefst aðgerða í loftslagsmálum

02.03.2019 - 10:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Ungt fólk hefur áhyggjur af loftslags- og umhverfismálum og vill að gripið verði til ráðstafana sem duga til framtíðar. Um hinn vestræna heim hefur myndast hreyfing ungs fólks, skólafólks sem vill aðgerðir strax.

Alþjóðleg hreyfing skólafólks

Segja má að málflutningur hinnar 16 ára Gretu Thunberg frá Svíþjóð á Loftslagsráðstefnunni í Katowice í Póllandi í desember eigi stóran þátt í þessari bylgju. Í gær (föstudag) tók hún þátt í stórri samkomu skólanema í Hamborg í Þýskalandi. Föstudaginn 15. mars er boðað til aðgerða og mótmælafunda skólanema í mörgum borgum Evrópu. Dágóður hópur skólakrakka á öllum aldri safnaðist saman í annað sinn á Austurvelli í Reykjavík í gær og skoraði á íslensk stjórnvöld að taka til hendinni. Spegillinn settist niður með þeim Gunnhildi Fríðu Hallgrímsdóttur formanni Sambands íslenskra framhaldsskólanema, Sigurði Thorlacius ritara Ungra umhverfissinna og Elsu Maríu Guðlaugs Drífudóttur formanni Landssamtaka íslenskra stúdenta og ræddi við þau um framtíðarsýn ungs fólks. 

Til hvers erum við að læra?

Elsa: Það er nú þannig að það hefur verið alþjóðleg bylting síðustu mánuði þar sem ungt fólk, námsmenn, hefur tekið upp á því að fara í verkfall, vikulega, til þess að krefjast aukinna aðgerða í loftslagsmálum.  Hér á Íslandi ákváðum við bara að slást í hópinn. Það er ekki spurning að við eigum að taka mjög virkan þátt í þessu líka.
Gætir þarna áhrifa frá Gretu Thunberg?
Gunnhildur: Klárlega. Það hefur orðið mikil vitundarvakning í Evrópu. Við eru að ganga í hóp margra skóla og borga í Evrópu. Þessum skólum fer fjölgandi og þetta er fólk sem fer út á göturnar og sýnir stjórnvöldum að því er ekki sama um framtíð sína og umhverfi sitt. Skilaboðin sem við eru að senda stjórnvöldum eru þau að ef að það er engin framtíð fyrir okkur; af hverju eru við þá að læra? Hver er tilgangurinn með því? Ef að þið ætlið ekki að gera neitt, af hverjum erum við þá að undirbúa okkur fyrir framtíð sem verður kannski ekkert til?

Ábyrgðin sett á ungt fólk 

Er þetta í alvöru vakning hjá ungu fólki, ekki bara hjá afmörkuðum hópi?
Sigurður:
Já ég myndi hikstalaust segja að það væri mikil vakning núna og við finnum mikinn meðbyr. Það eru mörg hundruð krakkar á öllum aldri, frá grunnskólum, framhaldsskólum, háskólum sem hafa tekið þátt í þessu verkfalli með okkur. Þannig að það er mikil vakning í gangi.
Gunnhildur: Ég tek undir það. Það er oft þannig að við fáum kvíða og ábyrgðin er sett á okkur. Við eigum að taka upp vegan lífsstíl og við eigum að fá okkur rafmagnsbíl. Það er allt í lagi með það, en það er líka stjórnvalda að taka ábyrgð.

Ungt fólk finnur mest fyrir afleiðingunum

Elsa: Ég held að það hafi verið svolítið þannig að fólk hafi tekið því fegins hendi að fá tækifæri til þess að gera eitthvað. Loksins fáum við að fara út, standa saman, gera eitthvað í þessu og við ætlum að sýna að ábyrgðin liggur ekki bara hjá einstaklingum heldur eru stjórnvöld með tæki og tól, með lausnir í höndunum og þau þurfa að láta til skara skríða núna.
Sigurður: Og þetta á ekki síður við um atvinnulífið. Þetta mál er þannig að við unga fólkið, og komandi kynslóðir, munum finna mest fyrir afleiðingunum í framtíðinni. Þetta mun fara versnandi á næstu áratugum og árhundruðum, þannig að þeir sem eru með völdin í dag, eða taka ákvarðanir í dag finna ekki fyrir þessum mesta þunga af afleiðingunum. Við unga fólkið erum alveg sannfærð um að við viljum eiga góða framtíð. Við viljum bregðast við núna strax.

Viljum ekki bara þrauka

Finnið þið fyrir einhverri beiskju gagnvart kynslóðinni á undan ykkur?
Elsa: Það er náttúrulega ákveðin gremja yfir þessu vegna þess að núna er verið að gefa okkur ónýta aðstöðu til að athafna okkur í. Það er búið að skemma hana áður en við fengum tækifæri til þess að gera eitthvað í því. Þess vegna viljum við að þeir sem hafa gert okkur þennan grikk taki til hjá sér svo að við getum tekið við. Og gert eitthvað annað en að þrauka í framtíðinni. Við viljum líka geta notið lífsins.   
Sigurður:  Og það er reyndar alltaf að koma meira og meira í ljós hversu slæmt þetta er, þó svo að vitneskjan hafi verið fyrir hendi í þó nokkurn tíma. Það er fyrst núna sem er að koma aðgerðaráætlun sem er fjármögnuð. Við viljum vissulega sjá meira fjármagn.

Elsa: Stjórnvöld hafa lagt fram aðgerðaráætlun. Þau segjast hafa gert eitthvað í þessu, en okkar spurning er; af hverju er ekki hægt að gera meira núna? Við erum tilbúin til þess að gera meira núna, en við þurfum að fá frumkvæðið einhvers staðar annars staðar frá. Við getum ekki tekið það sjálf.

Með hæsta kolefnisspor í heimi

Hverjar eru skyldur Íslendinga gagnvart umheiminum í þessum málum?
Sigurður: Við Íslendingar státum okkur af og montum okkur m.a. af hitaveituvæðingunni sem náttúrulega frábært og erum nú að taka orkuskiptin í samgöngum í gegn.  En ef við horfum á kolefnisspor Íslendings og tökum neysluna með, alla vöruna sem við neytum og allt sem við flytjum inn, þá erum við með hæsta kolefnisspor í heimi eða svo gott sem. Þannig að ábyrgðin hjá Íslendingum er mjög rík þó að við þykjumst vera umhverfisvæn.
Gunnhildur: Við eigum að setja fordæmi fyrir önnur ríki. Við erum með allt sem þarf til þess að gera okkur kolefnislaus. Við settum okkur það markmið að vera kolefnislaus fyrir 2040 og við viljum sjá aðgerðir til þess að við náum þessu markmiði. Það er það sem ungt fólk vill.

Breytingar áður en næsta kynslóð tekur við 

Eruð þið vongóð um að þetta breytist með ykkar kynslóð?
Elsa: Ég ætla rétt að vona að eitthvað muni breytast og ég sé að það er mikil viðleitni til þess að gera eitthvað í þessu. Það er talað um okkar kynslóð. Ég vil að eitthvað gerist áður en okkar kynslóð tekur við. Það er það sem þetta snýst um. Þannig að breytingarnar sem ég ætlast til að verði, þær eiga að gerast áður en kemur að okkur.

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV