Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Unglingar sofa stundum ekki neitt

06.12.2018 - 17:00
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Bóas Valdórsson, sálfræðingur í Menntaskólanum við Hamrahlíð, óttast afleiðingar ónægs svefns ungmenna. Niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar sýna að unglingar sofa stundum ekki neitt og oftast sofa þeir of lítið. Rúna Sif Stefánsdóttir, doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði og ein rannsakenda segir að krakkar sofi ekki bara of lítið heldur einnig óreglulega. Hún óttast að þau brotni niður fyrir þrítugt.

Vöktu í 30 til 40 klukkutíma 

Rannsóknin er mjög umfangsmikil og fór fram í sex skólum í Reykjavík. Tíu manna teymi fór á milli skólanna og mældi þrek, holdafar, tók bóðprufur og margt fleira. Niðurstöðurnar eru sláandi.Rúna Sif segir að svefn barnanna breytist mikið frá því þau eru 15 ára og fram að 17 ára aldri. Fimmtán ára krakkar í grunnskóla sofa minna en talið var, rétt undir 7 klukkustundum en svefn þeirra er reglulegri.   

„Svo sáum við það bara tveimur árum seinna þegar þau voru í öðrum bekk í menntó eða 17-18 ára þá var ekkert munstur lengur á svefninum þeirra. Það var mjög mikill breytileiki, mismunandi eftir dögum, voru að fara mjög seint að sofa klukkan 3-4-5 á nóttunni og stundum að vakna kl. 7 á morgnana, stundum að vakna á hádegi, stundum að vakna bara næsta dag. Sumir voru varla að sofa um nótt voru að taka kannski 30 klukkutíma og svo að leggja sig. Þetta var ofboðslega mikill einstaklings-breytileiki hjá krökkunum á bara tveimur árum.

Ekkert eitt skýrir hve lítið unglingar sofa

Á þessu tímabili breyttist svefn krakkanna, fór úr sex og hálfum tíma á nóttu í minna en sex klukkustundir.   
 
„Það fannst okkur ekki nógu gott að hann væri að minnka og ofan á það var þessi breytileiki líka að aukast. Það hefur sýnt sig að lítill svefn getur haft skaðleg áhrif en ef þú setur mikinn breytileika ofan á lítinn svefn þá ertu kominn kannski í svolítið hættulegt ástand.“

Rúna Sif segir að ekkert eitt skýri þessar niðurstöður. Mjög mikið sé að gera hjá krökkunum og hvernig klukkan er stillt á Íslandi hjálpi ekki.   

„Ég held að við getum líka aðeins talað um klukkuna hún er kannski ekki að hjálpa þar sem virðist vera enginn stöðugleiki hjá okkur. Við erum ekki tengd lífeðlisklukkunni.“

Frá árinu 1968 hafa klukkur á Íslandi verið stilltar eftir miðtíma Greenwich og er ekki skipt á milli sumar- og vetrartíma. Þetta þýðir að hádegi í Reykjavík er klukkan að meðaltali hálf tvö. Rannsóknir hafa sýnt að þetta hefur orðið til þess að sumir hér á landi eru með það sem kallað hefur verið seinkaða dægurgerð og þeir ná ekki fullum svefni. Í svefnrannsókn sem gerð var fyrir nokkrum árum kom í ljós að 35 prósent fólks á aldrinum 16-19 ára voru með svokallaða klukkuþreytu. 

Krakkar í fjölbrautarskóla sofa meira

Niðurstöðurnar sýndu líka að munur er á þeim krökkum sem eru í fjölbrautarskóla og hefðbundnum menntaskóla. 

„Þeir sem eru í þessu hefðbundna bekkjakerfi byrja rúmlega átta á morgnana búin 15-16. Þau voru að sofa minna en það var aðeins meiri regla hjá þeim. Þau voru að fylgja aðeins meira munstrinu úr grunnskólanum en voru samt að sofa rétt bara um sex klukkutíma sem er auðvitað allt of lítið. Nú fjölbrautin var að sofa að meðaltali alveg 30 til 40 mínútum lengur - sem við erum ánægð með vegna þess að þá eru þau komin nær sjö klukkutímunum allavega en það var meiri breytileiki í svefninum þeirra, það hjálpaði þeim að þau gátu farið seinna á fætur.“

Búast við að svefnleysið hafi alvarlegar afleiðingar

Erlendar rannsóknir hafa sýnt að enginn þolir að sofa minna en sjö klukkustundir í langan tíma. 
Í þessari rannsókn var svefn krakkanna kannaður í eina viku í senn og því ekki vitað hvað gerist eftir mánuð eða ár.    

„Þannig að við vitum ekki hvenær þau krassa eins og við búumst við að þau hljóti að gera einhvern tímann. Svo er önnur tilgáta, að nú hefur mikið verið um „börnát" [kulnun] í samfélaginu og það er að koma í ljós mun fyrr hjá ungu fólki heldur en var fyrir einhverjum árum. Þannig að við höfum miklar áhyggjur af því að þessir krakkar, 15-17 ára, sem eru ekki að sofa nóg og eru í lífsins hringekju, að þau munu í raun krassa fyrr, kannski bara fyrir þrítugt.“

Lítill svefn dregur úr þoli og einbeitingu

Bóas Valdórsson, skólasálfræðingur í Menntaskólanum við Hamrahlíð, segir hann spyrji alla unglinga sem koma til hans hvort þeir sofi nægjanlega mikið, því lítill svefn hafi mikil áhrif á hvernig okkur líður. Unglingarnir séu með stífa dagskrá, mörg þeirra vinna líka með skólanum og svo eru þau í íþróttum og tómstundastarfi.

„Ég held að allar rannsóknir og öll fræðin segi okkur það að lítill svefn hefur neikvæð áhrif. Það dregur úr mótlætaþoli okkar það dregur úr einbeitingu okkar, það eykur ákveðið tilfinningalegt ójafnvægi  þannig að  þó að við svindlum eitthvað á svefninum til skammst tíma þá getum við komist upp með það en ef við erum að svindla á svefninum til langs tíma þá býður það ákveðinni hættu heim um að þegar við lendum í eðlilegu mótlæti eða einhverjum erfiðleikum þá er úthald okkar til að takast á við það minna en það gæti annars verið.“  
 

Unglingar þurfa úthald til að takast á við eðlilegt mótlæti

Mikilvægt sé að hafa orku og úthald til þess að takast á við eðlilegt mótlæti. Ef unglingar finna til vanlíðanar og erfiðleika sé gott að staldra við þetta. 
Dæmi voru um það að krakkarnir sem tóku þátt í rannsókninni vöktu samfleytt í þrjátíu til fjörutíu klukkustundir. Bóas segist ekki vita um mörg slík dæmi.  

„En vissulega þekki ég mörg dæmi þar sem nemendur hafa sofið lítið og hafa lítið úthald eða einbeitingu yfir daginn. Við gerðum könnun hérna innan skólans í fyrra, hérna í MH, þar sem um 51% nemenda sögðust sjaldan eða aldrei hafa verið útsofin síðustu þrjátíu daga og sú tala hefur aðeins verið að hækka á milli ára, þannig að það er í samræmi við þessa rannsókn. Það var ekki spurt sérstaklega út í algeran vansvefn en lítill svefn virtist vera hjá mjög mörgum nemendum. 

Stressið fylgir skólanum og vinnunni

Viktoría Giorgia Cottino er nemand í Menntaskólanum við Sund hún segist sofa fjóra til fimm tíma á sólarhring.  

„Hjá mér persónulega er það bara stress sem fylgir skóla og vinnu og síðan er ég með þunglyndi og kvíða það spilar mjög mikið inn í svefninn minn líka.

Og ertu að vinna mikið? Já ég er að vinna aðra hverja helgi og svo alla mánudaga með.  12 tíma vaktir er það ekki?   jú um helgar það er frekar mikið og þá get ég ekkert lært um þá helgi og þarf þá að eyða öllum mánudeginum í að ná upp það sem ég átti að gera um helgina.  

Myndir þú segja að það væri frekar óreglulegur svefninn hjá þér?  Já mjög yfirleitt á mánudögum sérstaklega eftir vinnuhelgar þá er ég vakandi alveg frekar lengi að reyna að klára þrjú verkefni sem ég átti að vera búin með yfir helgina en ég næ ekki að gera það af því ég er að vinna. Þá er ég vakandi til svona 2 til 3 á næturnar.

Finnur þú fyrir miklum mun á svefninum þínum frá því þú varst 15 ára í grunnskóla og  núna? Já mjög miklum það er náttúrlega miklu meira stress í menntaskóla já og ég vissi ekki hversu mikið þetta myndi breytast bara svona allt að fara úr grunnskóla í menntaskóla bara svefninn maður nær voða litlu félagslífi það er mikið að gera hérna.“ 
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV