Unglingalandsmót UMFÍ 2020 verður haldið á Selfossi

03.12.2019 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd: UMFÍ - RÚV
Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið í Árborg um verslunarmannahelgina 2020. Samningur þessa efnis var undirritaður í hálfleik í leik Selfoss og FH í Olísdeild karla í handknattleik sem fram fór á Selfossi í gærkvöld.

 

Undir samninginn skrifuðu þau Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar, og Guðríður Aadnegard, formaður HSK. Frá þessu er greint á vef UMFÍ.

Haukur Valtýsson segir Unglingalandsmót UMFÍ eina af birtingarmyndum íslenska forvarnarmódelsins.

„Á mótinu leggjum við mikla áherslu á skipulagt íþróttastarf, þar sem allir geta verið með á eigin forsendum og samveru fjölskyldunnar um verslunarmannahelgina. Á mótinu skemmta sér allir vel á heilbrigðum forsendum og geta þátttakendur prófað fjölda íþróttagreina ásamt því að fylgjast með og hlusta á allt það nýjasta sem í boði er á tónlistarsviðinu á kvöldvökunum. Þessi íþróttahátíð hefur gert það að verkum. Nú er Unglingalandsmót UMFÍ orðið ein af helstu hátíðunum um verslunarmannahelgina þar sem allir skemmta sér saman á heilbrigðan hátt. Það er besta forvörnin,‟ segir hann.

Þetta er í annað sinn sem mótið verður haldið á Selfossi en það var einnig haldið þar árið 2012. Í ár var mótið haldið á Höfn í Hornafirði í 22. sinn. Mótið var fyrst haldið árið 1992 á Dalvík.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi