Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ungir Vestfirðingar vilja samræmda sorpflokkun

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Um fjörutíu ungmenni frá Ísafirði, Súðavík og Bolungarvík ræddu meðal annars umhverfis-, samgöngu- og menningarmál á ungmennaþingi í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í dag. Þörf á samræmdu flokkunarkerfi sveitarfélaganna og bættar samgöngur voru meðal þeirra áhersla sem komu úr vinnustofunum.

„Við ákváðum að skipta á borðin með umræðuefni og það kom alls konar fram,“ segir Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, ein sex stúlkna á Ísafirði sem undirbjuggu þingið.

 „Það þarf að samræma flokkunarkerfið hjá Ísafjarðarbæ og hjá bæjunum sem eru í kringum okkur. Það er ekki sama flokkunarkerfi en sama fyrirtæki sem tekur við sorpinu. Það kom í ljós að krakkar eru ekki sáttir með að þetta sé svona og við værum til í að fá breytingar,“ segir hún.

Þá hafi samgöngumál verið ofarlega í umræðunni. „Það þarf að fjölga ferðum í almenningssamgöngum hérna og það þarf að vera betra skipulag og umhverfi í kringum þær,“ segir Dagbjört.

Á þingið komu einnig bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og fulltrúar á bæjarstjórn og hlýddu á niðurstöðurnar. Dagbjört segir fulltrúa sveitarfélagsins hafa verið ánægð með þingið og þá sérstaklega þar sem ungmennaþing hefur ekki verið haldið af hálfu Ísafjarðarbæjar.

Dagbjört segir vel hafa verið mætt. Þó hefðu ungmenni á menntaskólaaldri mátt mæta betur.

„Það hefði kannski verið hægt að fá fleiri sjónarmið ef fleiri krakkar hefðu mætt á fjölbreyttari eldri en bara úr grunnskóla,“ segir Dagbjört.

Margrét Halldórsdóttir og Anna Steinsen voru ungmennunum til aðstoðar við framkvæmd þingsins sem reynslunámstilraun í námi þeirra við Háskóla Íslands. Margrét segir að ungmennaráð Ísafjarðarbæjar muni vinna úr niðurstöðum þingsins og senda bæjarstjórn.