Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ungir bændur hvattir til að stíga fram vegna COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Formaður Bændasamtakanna segir samtökin vera á tánum og vakti landbúnaðinn í landinu. Ungir bændur eru sérstaklega hvattir til að skrá sig í afleysingaþjónustu fyrir bændur sem hugsanlega veikjast af COVID-19. Birgðir af kjarnfóðri í landinu eru tryggðar fyrir næstu þrjá til fjóra mánuði.

Viðbragðsteymi Bændasamtakanna vegna COVID-19 faraldursins heldur reglulega fundi. Þar er farið yfir viðbrögð við hugsanlegu afurðatjóni og vinnutapi, áhrif sóttkvíar á starfsemi bænda og matvælafyrirtækja, fóður-, lyfja- og áburðarbyrgðir. Þetta kemur fram á vefnum bondi.is

Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtakanna segir þau velta upp erfiðustu sviðsmyndunum þessa dagana og hlutirnir breytist hratt. Þau séu á tánum og vakti landbúnaðinn í landinu til að tryggja matvælaöryggi þjóðarinnar.

Nú komi sennilega í ljós nauðsyn þess að vera sjálfbær í framleiðslu, hvort sem það sé grænmeti eða kjöt. „Auðvitað verður maður hugsi, ef Danir setja á samkomubann, þá hljóta þeir að vera með takmarkaða framleiðslugetu og þá veltum við því fyrir okkur hver staðan verður gagnvart innflutningi á vöru.“

Afleysingaþjónusta fyrir bændur

Í gær var óskað eftir fólki til að skrá sig á viðbragðslista með það fyrir augum að taka að sér tímabundna afleysingu á búum, komi til þess að bændur veikist.

Gunnar segir að hér áður fyrr hafi verið til eitthvað sem hét afleysingaþjónusta bænda, sem hafi verið hugsuð fyrir bændur í langveikindum. Þetta sé hins vegar fordæmalaust en nauðsynlegt að geta leyst af einyrkja sem lendi í sóttkví eða veikist.

Einkum séu ungir bændur, þeir sem séu í námi eða ekki komnir með bú sjálfir, hvattir til að skrá sig á listann. Hann segir þjónustuna í samræmi við búnaðarsamtök hvers héraðs. Það sé því ekki ein miðlæg þjónusta, heldur sé nöfnum safnað saman á viðkomandi svæði til að geta brugðist við ef í óefni er komið. 

Passa að afurðir komist á markað

Gunnar segir Íslendinga standa vel í matvælalegu tilliti. Talsvert sé til af kjöti og mjólk og grænmeti sé framleitt á hverjum degi. Vinna samtakanna nú miðist við að passa að það haldist hnökralaust og afurðir komist á markað.

Birgðir af kjarnfóðri í landinu séu tryggðar fyrir næstu þrjá til fjóra mánuði. Verði skortur á kjarnfóðri eftir þann tíma þurfi að huga að því að forgangsraða þangað sem þörfin er mest eins og á kjúklinga- og svínabú. Það sé þó enn fjarlæg framtíð og skipafélög hafa fullyrt að engar breytingar séu áætlaðar á skipaferðum.

Stóla á vikulegar sendingar af vörnum

Hann segir verkefnin æði mörg. Í garðyrkjunni sé til dæmis stuðst við lífrænar varnir, flugur sem haldi niðri óværu, sem komi með flugi einu sinni í viku. Bændur séu orðnir ansi háðir þessari sendingu og hann hugsar með hryllingi til þess ef hörgull yrði á því. Þessar áhyggjur hafi ekki verið til staðar í síðustu viku en séu orðar hluti af áhyggjum næstu vikna ef það kæmi til þess að það yrði hætt að fljúga.