Ungar rjúpur í lakari holdum en fullorðnar

28.11.2019 - 08:53
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Ungar rjúpur reyndust í lakari holdum en fullorðnir fuglar í mælingum Náttúrufræðistofnunar Íslands í haust. Enginn munur reyndist á kynjum.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur birt niðurstöður mælinga á holdafari rjúpna á veiðitíma í ár. Alls voru skoðaðar 300 rjúpur frá 19 veiðimönnum og voru flestar skotnar í Þingeyjarsýslum en 25 á Öxnadalsheiði. „Þetta er hluti af vöktun rjúpnastofnsins og tengist því að við viljum skilja betur hvaða þættir ráða stofnbreytingum rjúpunnar og vægi heilbrigði í þeim efnum,“ segir Ólafur K. Nielsen, starfsmaður Náttúrufræðistofnunar Íslands. 

Mælingarnar felist í því að hver fugl sé vigtaður auk þess sem lengd höfuðs hvers fugls er mæld, vænglengd og ristarlengd. Ólafur segir að niðurstöður mælinga sýni tölfræðilega marktækan mun á holdastuðli á milli ára og á milli aldurshópa. Ungar hafi verið í lakari holdum en fullorðnir fuglar en enginn munur hafi verið á kynjum.

Náttúrufræðistofnun hefur gert sambærilegar mælingar frá árinu 2006 og hyggst halda þessum rannsóknum áfram. Því er hægt að bera niðurstöðurnar saman við fyrri ár. Breytingar hjá ungum karlfuglum og kvenfuglum reyndust haldast mjög vel í hendur á milli ára, þó ekki í haust þegar ungir karlfuglar voru í ívið betri holdum en ungir kvenfuglar. 

Í haust var rjúpnaveiðidögum fjölgað úr 15 í 22. Í stað þess að veiðar hefjist síðustu helgina í október er veiðin nú bundin við nóvember og heimilt að veiða alla daga nema miðvikudaga og fimmtudaga. Áki Ármann Jónsson, formaður Skotvís, sagði í hádegisfréttum í gær að góð reynsla væri af breytingunum. Hann vill að gerði verði langtímaáætlun um tilhögun rjúpnaveiða og veiðidögum fjölgað frekar. 

Ólafur segir að tilgangur mælinganna sé að fylgjast með heilbrigði og stofnbreytingum og tengist ekki rjúpnaveiðum. „Það var ekki okkar tillaga að fjölga veiðidögum. Það var krafa veiðifélaga sem rökstuddu þá kröfu með því að benda á ákveðnar staðreyndir. Náttúrufræðistofnun Íslands gat ekki andæft þeim rökstuðningi.“ Heildarfjöldi daga hafi ekki marktæk tengsl við fjölda leyfilegra daga sem hver veiðimaður megi fara út. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi