Unga fólkið hetjurnar í baráttunni gegn Covid-19

Mynd: RÚV núll / Núllstilling

Unga fólkið hetjurnar í baráttunni gegn Covid-19

27.03.2020 - 13:10
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra, var gestur í fyrsta þætti Núllstillingar á RÚV 2 í gær. Í þættinum talaði hann meðal annars á persónulegu nótunum um æskustöðvar sínar í Vestmannaeyjum og hvað hann fær sér að borða á löngum vinnudögum.

Á venjulegum degi í eðlilegu árferði hefði Víðir verið staddur á Laugardalsvelli þegar viðtalið var tekið. Þar stóð til að Ísland mætti Rúmeníu í knattspyrnu. Víðir hefur um árabil gegnt hlutverki öryggisstjóra KSÍ og segir að á þeirri stundu hefði hann verið að klára að fara yfir öll öryggisatriði áður en áhorfendum yrði hleypt inn á leikvanginn. 

Covid-19 setti strik í reikninginn og landsleiknum var frestað. Sem er kannski eins gott því annars hefði öryggisstjórinn verið upptekinn í almannavörnum tengdum baráttunni gegn vírusnum. 

Víðir er þó bjartsýnn á haustið. Þá á Ísland leik á móti Englandi í þjóðadeildinni sem Víðir telur landsliðið að sjálfsögðu geta unnið. Hann var jafnframt bjartsýnn eftir blaðamannafund dagsins. 

Það sem ég held að eigi eftir að standa upp úr þegar við gerum þetta upp, verður unga fólkið okkar. Mér finnst unga fólkið okkar hafa tekið forystu í því að vilja gera þetta almennilega og verja viðkvæma fólkið okkar. 

Rútínan skiptir Víði miklu máli þessa dagana, þar með talið góður svefn og góð næring. Eliza Reid forsetafrú sendi Víði súpu fyrr í vikunni sem hann hyggst borða í kvöldmat á meðan birgðir endast.

Sem sakir standa býr hann á Hotel Natura og er eini gesturinn á hótelinu. Eldunaraðstaðan er því engin en Víðir segist reynslunni ríkari af því að takast á við náttúruhamfarir, hann megi ekki keyra sig út, verði að borða á réttum tíma og fara að sofa fyrir ellefu á kvöldin. Það sé eina leiðin til að halda haus í stórum verkefnum eins og hann stendur núna frammi fyrir. 

Víðir var gestur Atla og Snærósar í Núllstillingunni á RÚV 2. Þátturinn er í beinni útsendingu á RÚV 2 alla virka daga meðan á samkomubanni stendur. Gestir þáttarins í dag eru þau Patrekur Jaime samfélagsmiðlastjarna, Jón Jónsson tónlistarmaður, Salný Kaja ung og upprennandi leikkona sem er að fara að taka þátt í leikinni þáttaröð á vegum RÚV núll, Indíana Rós kynfræðingur og Arnar Eggert tónlistarspekúlant. Þátturinn hefst klukkan 16. 

Tengdar fréttir

RÚV núll hefur daglegar útsendingar í samkomubanni

Innlent

Víðir fluttur á hótel