Ung norsk kona dó úr hundaæði

07.05.2019 - 01:17
Mynd með færslu
Aðalsjúkrahúsið í Førde Mynd: R.F.Lillesvangstu - NRK
Norsk kona á þrítugsaldri dó úr hundaæði í kvöld, á sjúkrahúsi í norska bænum Førde. Konan var bitin af óðum hundi þegar sem hún var á ferðalagi um Suðausturasíu fyrir tveimur mánuðum. Elnaði henni smám saman sóttin eftir að heim kom, segir í tilkynningu frá heilbrigðisyfirvöldum í Sogni og Fjörðum, en það var ekki fyrr en á fimmtudag sem sjúkrahúsið var upplýst um hundsbitið og á laugardag var staðfest að konan væri með hundaæði.

Þá var það hins vegar orðið um seinan og lést hún á gjörgæsludeild sjúkrahússins snemma í kvöld. Er nú unnið að því að hafa uppi á öllum sem geta mögulega hafa smitast af hinni látnu, og einnig að smitvörnum á sjúkrahúsinu.

Fyrsta tilfellið frá 1815 

Hundaæði er alvarlegur veirusjúkdómur sem smitast frá dýrum til manna í gegnum bit eða klór, auk þess sem óð dýr geta smitað fólk með því að sleikja það. Kristine Mørch, yfirlæknir á Haukeland-háskólasjúkrahúsinu og sérfræðingur í trópískum smitsjúkdómum,  segir hundaæðisvírusinn geta valdið alvarlegri heilahimnubólgu og oftar en ekki banavænan. Sjúkdómurinn er afar fátíður í Evrópu, einkum Norður-Evrópu, og er þetta fyrsta staðfesta tilfellið í Noregi síðan 1815, segir í frétt NRK. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi