Undur kynhvatar líkamans

Mynd: ÍD / ÍD

Undur kynhvatar líkamans

02.03.2020 - 15:05

Höfundar

Kynhvöt, villileiki og nánd eru meginviðfangsefni verksins Rhythm of Poison sem Íslenski dansflokkurinn og nokkrir hundar sýna á nýja sviði Borgarleikhússins.

„Í brennidepli verksins eru undur kynhvatar líkamans og svo ímyndunaraflið og hvernig hið andlega streymir frá líkamanum og hvernig það snýr svo aftur til líkamans,“ segir Elina Pirinen höfundur Rhythm of Poison. Verkið er samið í samstarfi við Íslenska dansflokkinn, tónskáldið Ville Kabrell, dramatúrginn Heide Väätänen og sviðslistamanninn Valdimar Jóhannsson.

„Þetta er afar falleg samkunda með svo mörgum öflugum og næmum listamönnum,“ segir Elina. 

Sýningunni er lýst sem fjörugri tjáningarveislu þar sem iðkaður sé dulvitundardans. „Allt sem birtist á sér líka rætur í undirvitundinni svo að það er áhugavert að elta það og ekki ráðskast með það heldur leyfa því að gerast,“ segir Elina. Hún er mikill dýravinur og fá hundar að taka þátt í sýningunni. „Ég er dálítill aðgerðarsinni í mér svo að þetta er dálítið eins og mitt annað eðli eða frumeðli að vera í kompaníi með dýrum og vinna með þeim. Svo að við höfum líka farið í gegnum ferli með hundunum svo að þeim líði vel og finni sig á sviðinu.“

Meðal dansara í verkinu eru Saga Sigurðardóttir og Sigurður Andrean Sigurgeirsson. „Þetta er allt, ég held ég geti sagt það. Þetta er mikill dýrðardans; þetta eru líkamar drifnir áfram af þorsta, lífsþorsta, þorsta fyrir algleymi og nánd,“ segir Saga. „Við erum búin að vinna mjög markvisst með Elinu að vissri aðferð, líkamshljómi kannski. Ég held að við höfum öðlast nokkra nákvæmni í því en svo er spilað eftir eyranu með þessa nákvæmni að vopni samt.“

Í verkinu er frumstæðum hvötum hleypt upp á yfirborðið, sem annars eru ekki sýnilegar. Sigurður Andrean tekur undir það, að það hafi ekki reynst auðvelt að brjóta af sér hömlurnar sem annars tempra mann. „Ef ég tala fyrir sjálfan mig í því samhengi, þá fannst mér erfitt að gera það fyrst en svo fengum við góðar aðferðir til að opna á alls konar veika punkta hjá manni.“

Rhythm of Poison var frumsýnt á nýja sviði Borgarleikhússins föstudaginn 28. febrúar.