Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Undrast forgangsröðun VG að færa fé til NATO

23.06.2019 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Silfrið
Formaður Samfylkingarinnar segir það skrýtna forgangsröðun að taka fjármuni af fyrirhuguðum framlögum til þróunaraðstoðar og færa þá til framkvæmda fyrir NATO. Hann segist óttast að fjármunirnir skili sér ekki til baka þrátt fyrir að endurskoða eigi fjárframlög til þróunarmála í haust.

Alþingi samþykkti að lækka fyrirhuguð fjárframlög til þróunarmála um 600 milljónir króna á ári, þar af fara 300 milljónir til viðhalds varnarmannvirkja á Keflavíkurflugvelli. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir þetta skjóta skökku við. „Þetta kannski sýnir kannski hvar stjórnvöld telja að neyðin sé stærst - í hernaðaruppbyggingu á Miðnesheiði eða hjá fátækustu þjóðum heims.“

Hefði viljað að krónutalan myndi halda sér

„Það er verið að skera niður þróunarsamvinnu um 600 milljónir og það er talað um að vegna lækkunar á vergum þjóðartekjum þá myndist svigrúm til þess að lækka framlögin um 300 milljónir, eins og það er svo smekklega orðað,“ segir Logi og vísar þar í nefndarálit meirihluta fjárlaganefndar.

„Staðreyndin er hins vegar sú að við erum hálfdrættingar á við hin Norðurlöndin í þróunarsamvinnu og ég hefði talið að það ætti miklu frekar að halda sig við krónutöluna þannig að hlutfallið hækkaði þá frekar og við næðum okkar markmiðum um 0,7%  af vergri þjóðarframleiðslu skarpar en ella, en hér á að taka af aðstoð við fátækustu ríki heims og setja í  uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli,“ segir Logi.

Til stendur að endurskoða framlög til þróunarmála strax í haust, þannig að áætlanir ríkisstjórnarinnar um hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu haldist. Logi segist óttast að 600 milljónirnar sem færðar voru frá málaflokknum skili sér ekki til baka. „Dæmin sanna að þessi ríkisstjórn hefur verið að setja fram breytingar þar sem að framlög hafa verið að lækka á milli umræðna,“ segir Logi. „Ég geri ekki lítið úr kólnandi hagkerfi en við þurfum alltaf að vera fólk til að forgangsraða og finna fjármuni þar sem breiðustu bökin eru og þau eru svo sannarlega ekki innan þróunarsamvinnunnar.“

Tveir þingmenn Vinstri grænna sátu hjá við afgreiðslu málsins á Alþingi, þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson. Logi segist hissa á að þessi millifærsla fjármuna eigi sér stað í stjórnartíð Vinstri grænna. „Það er bara verið að klípa af málaflokknum. Þetta er óskiljanlegt og ég átta mig hreinlega ekki á erindi VG í þessari ríkisstjórn ef þetta er forgangsröðunin,“ segir Logi.