Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Undrast að kostir og gallar séu ekki greindir

03.10.2019 - 12:04
Innlent · EES · Stjórnmál
Mynd með færslu
 Mynd:
EES-skýrslan svarar ekki þeim spurningum sem Alþingi vildi fá svör við, segir Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, sem átti frumkvæði að skýrslubeiðninni. Kostir og gallar aðildar séu ekki metnir sem hafi þó verið hvatinn að skýrslubeiðni Alþingis.

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, var fyrsti flutningsmaður beiðni um að tekin yrði saman skýrsla um reynsluna af EES-samningnum, sem birt var í vikunni. Markmiðið var að greina kosti og galla samningsins. Ólafur undrast því orð í inngangskafla skýrslunnar um að nefndin hyggist ekki setjast í dómarasæti um kosti og galla. 

„Það hafa komið upp hérna mjög stór mál á undanförnum árum þar sem er ekki annað hægt að segja en að það sé reynt á þetta samstarf,“ segir Ólafur. Hann vísar þar til kjötmálsins, um að Íslendingar geti ekki krafist þess að innflutt kjöt hafi verið fryst áður en það kemur hingað. Einnig hafi vaknað spurningar í kringum þriðja orkupakkann. „Ég hefði talið að þessi atriði, ásamt til að mynda veikleikum í hinu svokallaða tveggja stoða kerfi, væru allt þættir sem kölluðu á ítarlega greiningu og umfjöllun.“

Ólafur segir margt gott í skýrslunni sem þakka beri fyrir. Annað veki þó undrun. „Það er eins og það sé talin sérstök nauðsyn á að verja þennan samning. Mér er ekki kunnugt um að þessi samningur sé undir sérstöku álagi. Mér er ekki kunnugt um nein stjórnmálasamtök sem beita sér fyrir því að við hverfum úr þessu samstarfi eða eitthvað af því tagi.“