Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Undirbúningur hafinn fyrir næstu matarhátíð

07.01.2020 - 11:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Nú þegar landsmenn hafa rétt náð að sporðrenna síðustu jólasteikinni er farið að undirbúa næstu matarhátíð. Þar eru hrútspungar og sviðasulta vinsælasti maturinn.

Þótt enn séu tæpar þrjár vikur í bóndadag, og fyrstu þorrablót, er þegar byrjað að pakka þorramat og senda í verslanir.

Byrjuðu á súrmatnum strax eftir sláturtíð

Og þetta er ekki matur sem byrjað var að framleiða í gær. „Nei, nei við byrjum á súrmatnum strax á haustdögum. Þegar sláturtíð er að ljúka þá byrjum við að leggja niður súrmat,“ segir Arnar Guðmundsson, framleiðslustjóri hjá Norðlenska.

Súrmaturinn jafnvel uppseldur í byrjun þorra

Það sem fyrst fer á markað er súrmatur í mysu en þegar nær dregur bóndadegi er byrjað að pakka nýmeti. „Svona þegar þorri gengur í garð þá er nú oft á tíðum hluti af súrmatnum þegar kominn í verslanir og jafnvel uppseldur hjá framleiðendum,“ segir Arnar.

Stór þorrablót kalla á meiri mat

Og það er heldur meira framleitt í ár en í fyrra og útlit fyrir meiri sölu. „Líklega eru það öll þessi stóru þorrablót. Það er mikið framboð af þorrablótum fyrir fólk að fara á og það virðist væntanlega auka þörfina fyrir þorramat,“ segir Ólafur Már Þórisson, markaðsstjóri Kjarnafæðis. En auk þess fari auðvitað mikið í smásölu og þeir segja sífellt fleiri prófa að borða þorramat.

Huga að þorramat fyrir vegan og grænmetisætur

Og brátt gætu farið að sjást aðrar tegurndir en kjötmeti, fyrir þá sem til dæmis eru vegan eða grænmetisætur. „Þetta er vaxandi hópur og ég held að við þurfum klárlega að huga að því að bjóða upp á þetta sem valmöguleika á þorrablótum,“ segir Ólafur Már.