Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Undirbúa brottför Bandaríkjahers frá Írak

06.01.2020 - 20:33
epa08107972 US soldiers stand guard at the first check point at the entrance in Fallujah, Iraq, 29 April 2004 (issued 06 January 2020). Iraqi Parliament on 05 January 2020 took the first step toward expelling all foreign troops deployed in the country after Washington killed Islamic Revolutionary Guard Corps commander Qasem Soleimani and the deputy leader of the Popular Mobilization Forces militia, Abu Mahdi al-Muhandis, in a drone strike at the Baghdad airport.  EPA-EFE/ALI HAIDER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
William Seely, yfirmaður bandaríska hersins í Írak, tilkynnti íröskum stjórnvöldum í dag að undirbúningur sé hafinn að því að flytja hersveitir Bandaríkjamanna burt. Mikil reiði ríkir í Írak eftir að Bandaríkjamenn réðu háttsettan íranskan herforingja af dögum í Írak og hefur verið kallað eftir því að herinn hverfi á braut.

Seely sendi yfirherstjórn Íraka bréf í dag þar sem hann sagði að undirbúningur væri hafinn að brottflutningi bandarískra hersveita frá Írak. Samkvæmt bréfinu ráðast Bandaríkjamenn í liðsflutninga næstu daga og vikur til að undirbúa brotthvarf hersins. 

Stjórnvöld í Írak kvörtuðu til aðalritara Sameinuðu þjóðanna og kröfðust þess að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmi loftárás Bandaríkjahers nærri flugvellinum í Bagdad á föstudag. Qassem Soleimani, valdamikill íranskur hershöfðingi, fórst í árásinni. Árásin hefur aukið mjög spennuna í Miðausturlöndum. Hundruð þúsunda fylgdu Soleimani til grafar í Íran í dag og þarlend stjórnvöld hétu hefndum. 

Uppfært 23:16 Mark T. Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að Bandaríkjaher sé ekki á förum frá Írak, engin ákvörðun hafi verið tekin um slíkt.